Flensa hefur herjað á mörg heimili í vetur og jafnvel sitt hvor flensan lagst á fjölskyldumeðlimi.
Við könnumst flest við þetta, börnin veikjast, síðan veikjast foreldrarnir og svo veikjast börnin aftur… og svona getur þetta gengið í hringi.
Þegar veikindi hafa verið á heimilinu er afar skynsamlegt að gera góða hreingerningu eftir að þau hafa gengið yfir og sótthreinsa aðeins heimilið.
Þessa 9 hluti ætti að þrífa eftir flensuna
1. Tannburstinn
Gott er að skipta um tannbursta – henda þeim gamla og fá sér nýjan eftir veikindi. Ef tannburstinn er mjög dýr og þú vilt síður skipta honum út er nauðsynlegt að sótthreinsa hann. Þú getur notað bakteríudrepandi munnskol eða sjóðandi vatn til að hreinsa hann.
2. Handklæði
Á meðan veikindi eru á heimilinu er mjög gott að skipta um handklæði daglega. Ekki láta sama handklæðið sem allir þurrka sér um hendurnar á hanga uppi lengur en einn dag.
Gættu þess síðan að setja öll handklæðin á suðu þegar þau eru þvegin.
3. Rúmfötin
Þegar maður er veikur svitnar maður meira en venjulega. Taktu af rúminu um leið og heilsan er orðin betri og þvoðu rúmfötin á eins miklum hita og þau þola.
Ef þú/þið hafið verið að nota teppi fyrir framan sjónvarpið eða annars staðar á heimilinu er skynsamlegt að þvo þau líka.
4. Yfirdýnan og koddarnir
Það getur líka verið gott að þvo koddana sem þú hefur sofið með í veikindunum og skella síðan yfirdýnunni af rúminu í þvott.
5. Baðherbergið
Allir í fjölskyldunni nota baðherbergið og þar er mikið af sýklum. Það er því mikilvægt að þrífa baðherbergið vel eftir veikindi.
Gott er að sótthreinsa og gæta þess að þrífa allt þar inni inni því stundum þegar baðherbergi eru þrifin vilja ákveðnir hlutir eða staðir verða eftir.
6. Eldhúsið
Meðan veikindi eru á heimilinu þrífið þá handfangið á ísskápnum reglulega. Þegar veikindin eru gengin yfir hreinsið þá vel borðplötur, vaskinn og hurðina á ísskápnum.
Ef börnin eru veik reynið að halda þeim frá eldhúsinu.
7. Borðfletir, handföng og annað slíkt
Eftir veikindin er gott að þrífa vel allar borðplötur og aðra harða borðfleti. Takið öll handföng og þurrkið vel af þeim, gott er að nota sótthreinsunarklúta í það verkefni.
8. Tækin á heimilinu
Takið öll tæki sem mikið eru notuð og þurrkið vel af þeim. Þetta á við heimilissímann, farsímann, spjaldtölvuna, lyklaborðið á tölvunni, fjarstýringar og annað slíkt. En þetta eru tækin sem allir á heimilinu handleika.
9. Barnadótið
Ef börn eru á heimilinu er skynsamlegt að þvo bangsa og önnur mjúkdýr eftir veikindi. Einnig önnur leikföng sem barnið hefur leikið sér með og handfjatlað í veikindunum. Eitthvað af dótinu má setja í uppþvottavélina en auk þess má nota sótthreinsunarklúta.