Hvaða dreymir þig um að gera og hvað vilt þú sjá verða að veruleika í lífi þínu?
Langar þig að opna þitt eigið fyrirtæki, verða ráðgjafi, byrja í ræktinni, hætta að borða ákveðnar fæðutegundir, fá þér nýja vinnu, auka tekjurnar eða einfaldlega verða hamingjusamari.
Þinn draumur
Þú hugsar oft um drauminn, þú jafnvel ræðir hann við maka þinn og vinkonur, og veltir fyrir þér hvernig þú getur látið hann rætast. En svo heldur þú áfram með þitt daglega líf, í þinni venjulegu rútínu og breytir engu.
Hvað sem það er, þá getur þú látið drauminn verða að veruleika. En hvernig?
Draumar geta ræst
Rannsóknir sýna að líkurnar á því að þú munir breyta einhverju í lífi þínu er einn á móti níu, jafnvel þótt þú standir frammi fyrir lífshættulegum sjúkdómi. Það hljómar ekki hughreystandi.
En þrátt fyrir þessar litlu líkur getur þú svo sannarlega lifað lífi drauma þinna. En til þess að svo verði þarftu fyrst að sjá drauminn fyrir þér verða að veruleika og trúa honum, og síðan þarftu að þjálfa heilann til að hjálpa þér að framkvæma hugsjónina
Þannig geturðu séð drauminn fyrir þér
Mynd getur skipt sköpum. Hún getur hrundið af stað byltingum og jafnvel sameinað þjóðir. Og mynd getur hreyft við hjarta þínu og fyllt þig af þrá til að gera eitthvað.
En hvernig getur þú notað mynd eða myndir til þess að færa þér það sem hjarta þitt þráir? Með því einfaldlega að teikna hana.
Þú þarft ekki að vera listamaður eða kunna að teikna, það skiptir ekki máli. En þegar þú teiknar þann stað sem þú ert á í lífinu núna og svo staðinn sem þig langar til að vera á, til dæmis eftir eitt ár, ertu strax komin/n með leiðarvísi að breytingum (þetta er betur útskýrt hér í myndbandinu að neðan).
Hér byrja töfrarnir
Áhrifaríkast er ef þú teiknar þina eigin mynd og fyllir hana af litum og tilfinningum. Það er vísindalega sannað að þegar þú teiknar og þegar þig dreymir leysist úr læðingi serótónín og oxýtósín sem gerir það að verkum að þú verður hamingjusöm/samur, skapandi – þú fyllist sjálfstrausti og þér líður vel.
En hvernig kemstu svo frá núverandi stað á þann stað sem þig dreymir um?
Þú þarft að taka þrjú djörf skref í áttina að honum.
Hér byrja töfrarnir. Heili þinn þekkir þig. Hann hefur skráð allt sem þú hefur séð, heyrt, og upplifað hvort sem það er ímyndun eða raunveruleiki. Þú þarft bara að biðja hann að hjálpa þér með púslin sem vantar upp á. Hann mun færa þér svörin og segja þér hvað þú þarft að gera til að komast á áfangastað.
Það eina sem þú þarft að gera er að horfa á myndina þína, loka augunum. Þetta leyfir huganum og heilanum að vinna úr því sem þú sérð og koma með bestu lausnina. Ef þú bara slakar á og spyrð hann hvaða djörfu skref þú þarft að taka í átt að draumum þínum kemur svarið fljótt. Galdurinn er að sjá, trúa og auðvitað að framkvæma.
Sjáðu myndina fyrir þér á hverjum einasta degi
En hafðu í huga að ef skrefin í átt að draumum þínum eru of djörf byrjar heilinn að tala þig ofan af hlutunum. Hann byrjar að sannfæra þig um að vera ekkert að breyta of miklu því hann höfðar til skynseminnar.
En hvernig getur þú ögrað þessu?
Með því að teikna mynd af framtíðinni sem heillar þig, þannig að þegar þú horfir á myndina af lífi þínu eins og það er núna finnur þú til, en þegar þú horfir á myndina af lífi þínu eftir eitt ár ertu full/ur hamingju, gleði og spenningi eins og þú sért nú þegar byrjuð/byrjaður að lifa því lífi.
Þú þarft því á hverjum degi að horfa á myndina og drekka hana í þig, finna tilfinningarnar og stíga inn veröldina þar sem allt er mögulegt. Það mikilvægasta af öllu er svo að framkvæma.
Þú byrjar til dæmis á því að hringja í vinkonu þína eða vin sem stofnaði sitt eigið fyrirtæki og spyrð hvernig hún/hann gerði það. Þú ferð til maka þíns og spyrð hvort hann styðji þig í þinni hugsjón, þú ferð til yfirmanns þíns og biður hann um launahækkun. Þannig og aðeins þannig verður þú eina manneskja af tíu sem lætur draumana rætast og breytir einhverju.
Maya Angelou sagði einu sinni, „A solitary fantasy can transform a million realities“ sem í stuttu máli þýðir að það sem þú ímyndar þér í einrúmi getur orðið að veruleika á milljón vegu.
Svo því ekki að prófa að teikna þína eigin mynd og vera sú manneskja sem þorir að láta draumana rætast!
Hér sérðu Patti Dobrowsolski útskýra þetta í þaula