Það þarf vart að kynna Göngum saman styrktarfélagið sem styrkir grunnrannsóknir á brjóstakrabbameini. Félagið hefur verið einstaklega öflugt og vel hefur gengið að fá fólk til að leggja því lið enda málefnið afar þarft og gott.
Erum mjög ánægð með framlagið í ár
Íslenskir hönnuðir hafa meðal annars starfað með Göngum saman og hannað vörur sem seldar hafa verið til styrktar félaginu. Og þeir sem láta sig íslenska hönnun varða bíða orðið spenntir eftir árlegu framlagi félagsins.
Við hér á Kokteil erum mjög ánægð með framlagið í ár en það er Guðbjörg Kristín Ingvarsdóttir, kennd við Aurum, sem er samstarfsaðili félagsins þetta árið. Guðbjörg hefur hannað fallegt silfurarmband og velur hún Hönnunarmars til að kynna það – enda vel við hæfi. Hún segist hafa viljað gera armband sem passaði fólki á öllum aldri og af báðum kynjum. Þau koma í þremur litum en Guðbjörg gerði líka eitt gullarmband sem hún vonast til að sá eða sú sem það kaupir samþykki að það verði til sýnis í versluninni í Hönnunarmars.
Hlökkum til að geta lagt góðu málefni lið
Okkur á Kokteil finnst hafa tekist einstakleg vel til í ár og hlökkum til að geta skartað þessari gersemi og styrkt um leið frábært málefni. Miðvikudaginn, 9. Mars, verður armbandið frumsýnt en þá verður hamingustund í verslun Aurum í Bankastræti 4 frá klukkan sex til átta um kvöldið. Armböndin verða síðan til sölu í versluninni út mars eða á meðan birgðir endast.
Guðbjörg segir að þar sem armböndin verði aðeins til sölu í stuttan tíma hafi hún fundið fyrir því að fólk hafi áhyggjur af því að missa af þeim. Fyrstur kemur, fyrstur fær segir máltækið og við ætlum ekki að missa af því!