Þrátt fyrir að eigandi og upphafsmaður regnbogabeyglanna, Scot Rossillo, hafi bakað þær í meira en 20 ár hafa þær þó aldrei verið vinsælli. Röðin fyrir utan búðina hans virðist endalaus og ekkert lát er á vinsældunum.
The Bagel Store er staðsett í Brooklyn í New York og seljast regnbogabeyglurnar gjarnan upp á tveimur tímum. Það er því óhætt að segja að þær séu uppáhald New York búa um þessar mundir.
Bakar þúsund stykki á dag
Scot býður upp á alls konar beyglur í verslun sinni og var engin sértök ástæða fyrir því að hann byrjaði að baka litaðar beyglur. Honum datt þetta bara í hug einn daginn og nú hefur heimsbyggðin loks tekið eftir þeim.
Það tekur um sex klukkustundir að búa til þessar litríku beyglur og getur Scot búið til um það bil 1000 stykki á dag en þrátt fyrir það annar hann ekki eftirspurninni. Það er hans stærsta vandamál til þessa.
Spennandi að smakka
Það er engin spurning að ef þú átt leið um New York þá verður þú að koma við í The Bagel Store í Brooklyn og fá þér eina beyglu. Og ef þú vilt sleppa við biðröðina getur þú pantað hana fyrirfram, en þú verður að panta í tíma því fyrir skemmstu var biðin ein og hálf vika 😉
En sjáðu hér hvernig þessar dásamlegu regnbogabeyglur verða til.
Sigga Lund