Það er hrífandi að horfa á ástfangið par ganga eftir götunni, sjá þau haldast í hendur brosandi og hamingjusöm. Maður getur nánast fundið hversu ástfangin þau eru því það geislar svo af þeim.
Rétt hjá þeim er svo einhleyp kona. Hún lítur út fyrir að vera mjög hamingjusöm líka. Það geislar af henni eins og parinu og hún er brosandi.
Breyttir tímar
Þetta er ekki lengur eins og hér áður fyrr þegar fólk fann til með konum sem voru einhleypar. Það þótti hálf skömmustulegt eitthvað. En nú er öldin önnur.
Í dag eru konur fullkomlega hamingjusamar einar og einhleypar. En hvernig getur það verið? Þjóðfélagið hefur innprentað það í okkur að lífið sé betra ef við eigum maka, að hamingjan felist í því að tveir einstaklingar rugli saman reitum. En ef við horfum í kringum okkur í dag má oftar en ekki sjá að einhleypu konurnar eru oft hamingjusamari en giftu vinkonur sínar.
Hér er skýringin á því – og þetta vilja þær einhleypu að þú vitir
1. Ég þarf ekki eiginmann
Ég þarf ekki að eiga maka né finna þennan eina rétta. Ég er fullkomlega sátt og hamingjusöm ein. Ég sjálf er nóg og ég þarf ekki einhvern annan til að fullomna mig eða gera mig heila. Ég hef eytt allt of mörgum árum í að treysta á að aðrir geri mig hamingjusama. Ég er allt sem ég þarf.
2. Ekki vorkenna mér
Ég er ekki einmanna. Ég þarf ekki á meðaumkun að halda. Í alvöru.
Ég er sátt, og ég er ekki sorgmædd yfir því að vera ein, og það ættir þú ekki heldur að vera. Ég hef aldrei verið hamingjusamari. Ef ég vil félagsskap get ég hringt í einhvern af vinum mínum og beðið þá um að koma með mér á stefnumót.
3. Í alvöru, ég er hamingjusöm
Þér finnst kannski erfitt að trúa því, en það er satt. Samfélagið gefur það í skyn að það þurfi tvo til einstaklinga saman til að vera hamingjusamur. Þannig er það bara ekki. Ég hef eytt nógu miklum tíma í að reyna að þóknast öllum öðrum. Tíminn fyrir mína eigin hamingju er kominn.
4. Ég bið þig, ekki fleiri blind stefnumót
Takk, en sama og þegið. Ég meina það. Ég efast ekki um að Hannes vinur þinn er meiriháttar frábær strákur. En ég mun finna minn eigin Hannes þegar ég held að ég sé tilbúin fyrir slíkan félagsskap.
5. Frelsið er yndislegt
Ég er frjáls og get gert það sem ég vil. Komið og farið þegar ég vil, borðað þegar ég vil og það sem ég vil og eins mikið og eins lítið og ég vil. Farið þangað sem ég vil. Ég hef aldrei verið eins frjáls eins og ég er núna og það er í einu orði sagt æðislegt.
6. Að fara ein út að borða er ekkert vandræðalegt
Í raun og veru elska ég að fara ein út að borða og ég nýt þess að vera í mínum eigin félagsskap. Þannig í alvöru, það er allt í lagi með mig. Ég nýt einverunnar, að komast aðeins í burtu frá öllu og bara sitja með gott vínglas og borða góðan mat.
7. Að sakna þess að vera ekki í sambandi er ekki eins og þú heldur
Ég sakna þess stundum að eiga ekki maka, en það er alls ekki eins og þú heldur. Stundum gæti ég alveg hugsað mér að eiga einhvern sem skilur eftir falleg skilaboð eða sendir mér hlýleg sms. Það eru þessir litlu hlutir. Ekki kynlíf eða líkamleg nánd. Þessir hlutir sem fá fiðrildin í maganum af stað.
8. Talandi um kynlíf
Ég hugsa ekki um kynlíf á hverjum degi svo það er ekki hægt að segja að ég sakni þess. Ég er ekki að fara rugla reitum mínum við karlmann bara til þess að stunda kynlíf. Kynlíf án tilfinninga er ekkert í mínum augum. Ekki misskilja mig, kynlíf er æðislegt… en notaðu ímyndunaraflið. Ég er í góðum málum.
9. Að ferðast ein er áskorun, en skemmtilegt
Ég man eftir þeim ferðalögum sem ég og minn fyrrverandi fórum í og þau voru ekkert spes. En núna þegar ég er ein eru ferðlög svo miklu skemmtilegri. Ég eyði miklu meiri tíma í að kynnast nýju fólki og öðru fólki sem er eitt á ferðalagi eins og ég.
10. Það fylgja því margar áskoranir að vera einn, en maður lifir og lærir
Eins og að setja loft í dekkin á bílnum og tékka á olíunni, mála, bora í veggi og fleiri svona litlir hlutir sem ég vissi ekkert hvernig átti að gera áður hafa verið áskorun. En ég lifi og læri og ég er í raun rosalega stolt af sjálfri mér fyrir alla þá hluti sem ég hef lært og gert.
11. Er stolt
Ég er rosalega stolt. Ekki bara vegna þeirra hluta sem ég hef lært að gera ein og óstudd heldur líka fyrir það hversu mikið ég hef vaxið við að horfast í augu við ótta minn við margar kringumstæður, og sigrast á honum.
12. Að hafa allt rúmið út af fyrir mig er himneskt
Auðvitað er að notalegt að hafa einhvern til að kúra hjá annað slagið, en leyfðu mér að segja þér, það að hafa rúmið út af fyrir sig er engu líkt. Svo er enginn sem hrýtur upp í eyrað á þér. Það er bókstaflega himneskt að fara upp í rúm á hverju kvöldi.
Greinin sem er eftir Iva Ursano er þýdd og birtist á vefnum www.stevenaitchison.co.uk/blog
Sigga Lund