Í mínum huga er hamingjan eitt það mikilvægasta í lífinu og merkilegt nokk þá er hún ekki alltaf nákvæmlega það sem við teljum að hún sé.
Hamingjuna er nefnilega ekki hægt að kaupa, hana er ekki hægt að selja og þú getur ekki fengið hana að láni. Hamingjan er alfarið þín og hún sprettur úr þínum innstu hugarfylgsnum.
Ekki bíða eftir að hamingjan komi til þín
Þegar fólk hugsar um hamingjuna einblínir það yfirleitt á stóru hlutina og eyðir of miklum tíma í að bíða eftir að eitthvað gerist svo það geti orðið hamingjusamt. En á meðan að við bíðum fer fólk gjarnan á mis við hina raunverulegu hamingju. Þeir þættir sem gjarnan eru tengdir við það að öðlast hamingjuríkt líf eru markmið af ýmsum toga, frami, maki, nýtt hús og áfram mætti telja á þessa vegu.
Segja má að margir leiti langt yfir skammt því að á meðan öll athyglin er á þessa stóru þætti gleymast allir smáu hlutirnir sem veita okkur hamingju og gleði, svo ekki sé nú talað um það að njóta þess að vera til og lifa í núinu.
Litlu hlutirnir skipta virkilega miklu máli
Þessir litlu og að því virðist ómerkilegu hlutir skipta einfaldlega miklu meira máli en okkur grunar. Margt, ef ekki flest, af þessu er eitthvað sem við tökum sem sjálfsögðum hlut. Engu að síður eru það einmitt þessir litlu hlutir í lífi okkar sem eiga svo stóran þátt í því að gera okkur ánægð, vekja upp bros og hækka hamingjustuðulinn.
Hér er listi með 50 atriðum sem eiga sinn þátt í því að hækka hamingjustuðulinn
1. Að fylgjast með litlum börnum að leik.
2. Lyktin af nýlöguðu kaffi – tilhugsunin ein er stundum nóg.
3. Fallegt sólsetur.
4. Falleg sólaruppkoma.
5. Vingjarnlegt bros – því eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt.
6. Fuglasöngur – og allur annar fallegur söngur.
7. Lyktin af uppáhalds matnum.
8. Vorblóm, sumarblóm, afskorin blóm – og bara öll önnur blóm.
9. Að fá einlægt hrós – og að hrósa öðrum af einlægni.
10. Að hlýða á uppáhalds tónlistina.
11. Uppáhalds lagið – sem þú spilar aftur og aftur af því það gerir þig glaða/n.
12. Að upplifa góðmennsku.
13. Góður göngutúr úti í náttúrunni.
14. Brakandi hrein og ný rúmföt.
15. Að kúra – að morgni, að kveldi eða bara hvenær sem er.
16. Að vakna og átta sig á því að maður má sofa lengur – afar notalegt!
17. Að gera góðverk – hjartað stækkar um eitt númer við það.
18. Horfa á hvolpa og/eða kettlinga að leik.
19. Fallegur sumarmorgunn með sól og logni – já takk!
20. Morgunsól – yndislegt að fara á fætur þegar sólin skín.
21. Strönd, sól og sandur – samt kannski ekki fyrir alla.
22. Að kunna fullkomlega textann að einhverju lagi þegar þú heyrir það spilað.
23. Þegar einhver hleypir þér fram fyrir í röðinni – jú það gerist víst.
24. Uppáhalds drykkurinn og þegar þú tekur fyrsta sopann af honum.
25. Lyktin af nýslegnu grasi.
26. Lykt sem tengist æskunni og vekur upp góðar minningar – t.d. um ömmu og afa.
27. Að kveikja á sjónvarpinu og sjá að uppáhalds myndin er einmitt að byrja.
28. Finna pening í vasanum, eða annars staðar, sem þú hafðir gleymt – óvænt og skemmtilegt.
29. Að vakna eins og nýsleginn túskildingur og tilbúinn að taka daginn með trompi.
30. Hlutur sem tengist æskunni og vekur upp notalegar minningar.
31. Að eiga góðan hárdag – vekur alltaf upp gleði hjá mér.
32. Langt, gott og hlýtt faðmlag.
33. Heitt og gott bað – ekki verra að hafa kertaljós og góðan ilm.
34. Súkkulaðimolar – og reyndar bara allt súkkulaði.
35. Nýfallinn jólasnjór.
36. Alúðlegur og skemmtilegur afgreiðslumaður/kona – getur gjörbreytt innkaupaferðinni.
37. Sama notalega röddin í útvarpinu á hverjum morgni.
38. Stór og fallegur regnbogi.
39. Þegar einhver segist sakna þín.
40. Samvera með góðum vinum og góðum mat – klikkar ekki.
41. Þegar einhver verður rosa glaður að sjá þig – líka heimilishundurinn þegar þú kemur heim í lok dags.
42. Að prófa nýja uppskrift sem heppnast fullkomlega.
43. Söngur lóunnar – mér finnst fátt yndislegra.
44. Hnegg hrossagauksins – alveg dásemd.
45. Óvænt boð í eitthvað skemmtilegt.
46. Að rifja upp skemmtilegar minningar – enn betra að gera það með öðrum.
47. Að sitja við arineld.
48. Innilegur og góður hlátur.
49. Þegar einhver sýnir þér væntumþykju.
50. Að leika sér og njóta augnabliksins – sem er kannski það mikilvægasta af þessu öllu.
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com