Margir vilja nota sem allra minnst af sterkum efnum og leitast við að nota eins mikið náttúrulegt og mögulegt er.
Efni í hárið er þar engin undantekning en það getur einmitt verið mjög gott fyrir hárið að hvíla það aðeins á venjulegu sjampói. Hvort heldur sem það er gert með því að þvo hárið sjaldnar eða leita annarra leiða.
Matarsódi og edik
En fyrir þá sem vilja leita annarra leiða erum við hér með náttúrulega aðferð sem inniheldur matarsóda og edik.
Já matarsódinn er svo sannarlega til margra hluta nytsamlegur. Þetta er ódýr og náttúruleg leið til að þvo hárið – og hún virkar.
Þannig er þetta gert
Þú blandar saman 1 hluta matarsóda með 3 hlutum vatns. Fyrir axlarsítt hár t.d. þýðir það 2 til 3 matskeiðar af matarsóda.
Matarsódinn og vatnið er sett í litla flösku eða brúsa og hrist vel saman.
Settu þá blönduna í þurrt eða blautt hárið. Byrjað er á rótinni og svo unnið út í endana.
Leyfðu þessu þá að liggja í hárinu í 1 til 3 mínútur.
Skolaðu síðan með volgu vatni.
Þá er komið að því að setja eplaedikið í hárið til að hreinsa.
Blandaðu saman 1 hluta eplaediks og 4 hlutum vatns í brúsa. Til að draga úr lyktinni af edikinu er gott að setja örlítið af olíu út í blönduna, eins og t.d. rósmarín, lavender eða piparmyntu.
Settu þá blönduna í hárið og dreifðu vel úr henni svo hún fari í allt hárið.
Skolaðu síðan úr með köldu vatni.