Hún er eiginlega of girnileg þessi baka. Enda fátt betra í munni en súkkulaði og saltkaramella – og þegar Oreo bætist svo við.
Himneskt!
Það má útbúa bökuna kvöldið áður en hún er borin fram og geyma hana í ísskáp yfir nótt. Þá er það hvorki tímafrekt né flókið að útbúa þessa dásemd.
Stundum verður maður bara að leyfa sér smá…
Það sem þarf
36 stk Oreo-kexkökur
1 bolli smjör (16 matskeiðar – og athugið að það þarf að skipta því í tvo hluta)
2/3 bolli púðursykur
1 ¼ bolli rjómi
340 gr. súkkulaðidropar (t.d. frá Nóa Siríus eða Hershey´s)
sjávarsalt
Aðferð
Maukið Oreo kökurnar í matvinnsluvél.
Blandið 8 matskeiðum af bræddu smjöri vel saman við kexkökurnar.
Setjið þetta í bökumót og þrýstið blöndunni vel ofan í mótið og í hliðarnar.
Látið mótið síðan inn í frysti í svona 10 mínútur.
Takið þá restina af smjörinu og setjið í lítinn pott ásamt púðursykrinum. Bræðið þetta saman við miðlungshita og hrærið stöðugt í þar til blandan byrjar að sjóða.
Leyfið þessu að sjóða í 1 mínútu og hrærið stöðugt í á meðan.
Takið þá af hitanum og hrærið ¼ bolla af rjóma rólega saman við þar til blandan er orðin mjúk. Leyfið þá karamellunni að kólna í 15 mínútur.
Hellið síðan karamellunni yfir Oreo botninn og setjið inn í frysti í 30 til 45 mínútur. En ekki láta þetta samt frjósa.
Á meðan bakan er í frystinum bræðið þá súkkulaðið yfir vatnsbaði og hellið síðan 1 bolla af rjóma yfir og látið liggja í 5 mínútur. Hrærið síðan þar til þetta hefur blandast vel saman og er orðið mjúkt.
Takið þá bökuna út úr frystinum og hellið súkkulaðiblöndunni yfir karamelluna. Sléttið vel úr súkkulaðinu með skeið eða góðri sleif.
Setjið þá aftur í frystinn í 30 mínútur – eða geymið í kæli þar til bakan er borin fram.
Takið bökuna úr forminu og setjið á disk – og dreifið að lokum grófu sjávarsalti yfir.
Njótið síðan þessarar dásemdar!
Uppskrift fengin hjá sælkerunum kevinandamanda.com
Jóna Pétursdóttir – kokteillinn@gmail.com