Það er nú ekki amalegt að geta boðið vinum og ættingjum upp á ekta jólasangríu á aðventunni þegar þeir kíkja við. Eða bara til að eiga inn í ísskáp til að dreypa á sjálf/ur þegar þú skrifar jólakortin eða pakkar inn gjöfunum. Nú eða þá í jólapartýið. Þessa jólasangríu má nefnilega drekka allan desember.
Það er svo einfalt að gera hana og það tekur ekki meira en tíu mínútur. Svo geymirðu þessa dásemd í ísskápnum og grípur í í hvert sinn sem þér þykir tilefni til.
Það sem þú þarft (fyrir 6)
1 flaska rauðvín (750 ml)
2 bollar granataepla- eða trönuberjasafi
½ bolli eplasíder
½ bolli koníak
¼ bolli hunang
fræ úr einu granataepli
1 bolli trönuber
1 grænt epli eða græn pera – skorið í bita
Aðferð
Finndu til allt sem þú þarft.
Settu ávextina í botninn á hæfilega stóru íláti eða könnu sem þú getur lokað.
Blandaðu öllum vökva saman og helltu honum síðan yfir ávextina og hrærðu í.
Skelltu þessu í ísskápinn og kældu.
Mælt er með að gera drykkinn kvöldið eða jafnvel deginum áður en hann er borinn fram, því sangrían verður betri eftir því sem hún fær að standa lengur.
Uppskriftin er fengin af tablespoon.com
Sigga Lund