Hvaða kona elskar ekki skó og háa hæla?
Þrátt fyrir að það geti verið kvöl og pína að klæðast þeim heila kvöldstund þá lætur maður sig hafa það. Það er bara þess virði.
Þolum víst ekki nema 34 mínútur á háum hælum
Það er reyndar búið að sýna fram á að konur sem ganga á hælum geta verið í þeim í 34 mínútur áður en þær fara að finna fyrir óþægindum, það er ekki meira en það.
Samt dansaði maður á hælum klukkutímunum saman hér í eina tíð. Þvílík harka!
Sem betur fer eru í dag til góð ráð og fullt af vörum sem hjálpa okkur að líða betur þegar við erum á háum hælum.
Hér eru 10 leiðir til að gera háu hælana þægilegri
1. Lækkaðu þá aðeins
Ef þú fellur fyrir ákveðnu skópari (það gerist) og þeir eru á himinháum hælum, veistu að þeir munu ekki fara sérlega vel með fæturna. Ekki hafa áhyggjur. Skósmiðir geta lækkað hælana svo þeir henti þér betur og verði þægilegri. Þetta fer þó eftir því hvernig skórinn er.
2. Einbeittu þér að göngulaginu
Að ganga í háum hælum eru hálfgerð vísindi. Að skokka um í strigaskóm er alls ekki það sama og að vera á hælum eina kvöldstund. Þú þarft að beina athyglinni að líkamsstöðunni allri. Stundaðu magaæfingar og æfðu göngulagið til að endast lengur í skónum.
3. Gakktu þá til
Áður en þú ferð út í nýjum skóm skaltu ganga þá aðeins til inni. Settu á þig þykka sokka og labbaðu um heima hjá þér eins og þurfa þykir. Þetta mýkir skóna og þér mun líða betur í þeim þegar þú ferð út. Ef þú gengur þá ekki til munu þeir meiða þig.
4. Veldu skó sem falla að þínum fótum
Þetta hljómar kannski asnalega, en ef þú ert með breiða fætur eru támjóir skór kannski ekki málið fyrir þig. Og ef þú ert með flatan fót eru háir hælar eitthvað sem þú ættir að taka út af borðinu og fá þér frekar skó með mjög lágum hæl.
5. Notaðu gerviskinn
Gerviskinn (plásturinn góði) er ekki bara hjálplegt til að móta skóna, heldur kemur það í veg fyrir núning og blöðrumyndun. Ef þú ert þegar með blöðrur má setja það yfir þær og önnur viðkvæm svæði til að forðast frekari sársauka.
6. Breiðir hælar þægilegri
Pinnahælar geta verið rosalega flottir. En þegar á öllu er á botninn hvolft þá eru skór með breiðum hælum þægilegri. Veldu þá frekar ef þú getur.
7. Taktu með þér krem fyrir blöðrur hvert sem þú ferð
Ef þú vilt ekki setja gerviskinn eða plástur á blöðrur, getur þú notað sérstakt blöðrukrem til að bera á þær. Berðu það á þá staði sem eru viðkvæmastir áður en þú ferð út, og hafðu það með í töskunni til öryggis ef neyðartilvik koma upp á meðan þú ert úti á lífinu.
8. Settu innlegg í skóna
Ef skórnir eru aðeins rúmir er gott ráð að setja heilt innlegg í þá. En ef þú vilt aðeins mýkja undir viðkvæm svæði er mælt með gelpúðum sem hægt er að líma í skóna þar sem hentar þér best. Þetta gerir kraftaverk.
9. Settu öryggið á oddinn
Ef þér líður þannig að skórnir séu mjög lausir á þér, þannig að þeir tolla varla á fótunum á það ekkert eftir að breytast. Þeir eiga aldrei eftir að verða þægilegri. Þetta er algengt vandamál hjá konum sem eru með fíngerðar fætur. Því er mælt með að þær velji skó með ökklabandi svo þeir sitji betur.
10. Notaðu „Heel liners“ eða plástur
Þegar hællinn gengur sífellt upp úr skónum er hægt að fá sér „Heel liners“ sem er sérstakt lím sem er sett í skóna til að koma í veg fyrir að hælarnir séu stöðugt að fara upp úr. Þetta er mikil snilld og er sérstaklega fyrir skó sem eru ekki með ökklaböndum.
Þessi ráð eru frá Cosmopolitan.