Mikil heilsuefling hefur átt sér stað undanfarin ár – sem er auðvitað hið besta mál. Margir hafa snúið við blaðinu og gert lífstílsbreytingar og hugsa betur um sig.
En eins og með margt annað er hægt að ganga of langt í heilsufæðinu. Talið er að fólk sem það gerir og verður alveg heltekið af fæðu sinni eigi við vandamál að stríða, líkt og þeir sem stríða við átröskunarsjúkdóma.
En hvernig vitum við hvort þetta er orðið vandamál og hvort maturinn stjórni algjörlega lífi okkar?
Hér eru fimm vísbendingar sem gefa það til kynna
Þú lætur matinn stjórna lífi þínu
Það er ekkert eðlilegt við það að eyða fleiri klukkutímum í að ákveða hvað þú ætlar að borða eða hvernig þú ætlar að undirbúa matinn. Hvað þá að eyða andlegri orku þinni í að hafa áhyggjur af því.
Ef þér finnst erfitt að taka þátt í félagslegum athöfnum þar sem matur kemur við sögu af því þú óttast að þurfa að borða eitthvað sem þér finnst ekki passa inn í þitt rétta mataræði þá ertu að láta matinn stjórna lífi þínu. Það sama á við ef þú hefur áhyggjur af því að félagslífið hindri þig í að fara í ræktina.
Þú ert mjög gagnrýnin/n hvað aðrir borða
Í hreinskilni sagt þá er það ekki þitt mál hvað aðrir borða og þú getur ekki stjórnað því. Ekki setja þig á háan hest og halda að þitt mataræði sé það eina rétta. Hver og einn verður að fá að velja hvað hann lætur ofan í sig.
Það hefur heldur ekkert upp á sig að stressa sig yfir því að það borði ekki allir eins og þú. Láttu það ekki skemma fyrir þér samskipti þín við annað fólk.
Þú ert mjög oft með samviskubit yfir fæðuvali þínu
Því miður virðist þetta vera mjög algengt hjá mörgum. Ef þú fyllist sektarkennd og þér líður illa yfir því að fá þér eitthvað sem þú telur ekki samræmast hinu rétta mataræði þá ertu líklega ekki á réttri leið. Og að finnast þú alltaf þurfa að leiðrétta það þegar þú lætur eitthvað eftir þér er ekki gott.
Það þarf líka að hugsa um sálina og stundum er allt í lagi að gefa aðeins eftir. Svo framarlega sem þú fylgir ákveðnu mataræði stærstan hluta tímans og ert meðvituð/meðvitaður um það þegar þú ferð út fyrir þann ramma ertu í fínum málum.
Þú útilokar heilu fæðuflokkana
Með því að taka út úr fæðunni heilu fæðuflokkana ertu að öllum líkindum að svipta líkamann næringarefnum sem hann þarfnast. Auk þess getur slíkt leitt til þess að líkaminn öskrar á þessi næringarefni og það eitt og sér getur leitt til ofáts.
Hér er ekki verið að tala um það að hætta að borða djúpsteiktan mat eða sælgæti heldur þegar fólk tekur algjörlega út ákveðna fæðuflokka.
Þú sýnir einkenni þunglyndis
Margir átta sig ekki á því að átröskun og óeðlilegar matarvenjur eiga gjarnan upptök sín í heilanum og slíkt þarfnast meðferðar. Um helmingur þeirra sem eiga við átröskun að stríða kljást einnig við þunglyndi. Ef þú hefur sofið of lítið eða of mikið, átt erfitt með að einbeita þér, ert full/ur af vonleysi, hefur enga matarlyst eða þá óeðlilega mikla matarlyst, og hefur misst áhugann á daglegum athöfnum þá er kominn tími til að leita sér hjálpar.
Meðalvegurinn
Meðalvegurinn er alltaf bestur í öllu en hann er vandrataður. Þess vegna er mikilvægt að finna út hvað hentar þínum líkama best til að vera heilbrigð/ur – það er fyrst og fremst það sem ætti að ráða för. Og það er vel hægt að vera heilbrigður þótt stundum sé farið aðeins út fyrir þann ramma sem þú ert búin/n að setja þér.