Það er þetta með húsverkin, hjónabandið og kynlífið.
Samkvæmt könnun sem framkvæmd var árið 2002 kom í ljós að hjón stunduðu minna kynlíf ef eiginmaðurinn hjálpaði til við heimilisverkin – sem sumum fannst hljóma ótrúverðugt.
Þegar Matt Johnson prófessor og sérhæfður fjölskylduráðgjafi las í þessa könnun þá hugsaði hann með sér að þetta gæti ekki verið. Ekki miðað við hans reynslu af fjölskyldu- og hjónaráðgjöf í gegnum tíðina. Hann ákvað því að sýna fram á að þetta væri ekki rétt.
Snýst um virðingu
Á fimm ára tímabili skoðaði hann hegðun 1338 þýskra hjóna og komst að því sem hann vissi allan tímann að hjón sem hjálpast að við heimilisverkin stunda meira kynlíf. „Þetta snýst allt um virðingu“ segir Matt samkvæmt Goodhousekeeping.
Hann segir að hjón sem hjálpist að við þá ábyrgð að halda heimili virði hvort annað meira og þar af leiðandi sé kynlífið meira og betra. Það verður að viðurkennast að heimilisverkin eru ekki alltaf þau skemmtilegustu, en vitandi að báðir aðilar leggi sitt af mörkum til að klára verkefnin komi í veg fyrir pirring, leiðindi og jafnvel biturleika.
Þess virði að reyna
Flest hljótum við að vera sammála um að sanngjörn skipting maka í heimilishaldinu sé nauðsynleg. Því er mikilvægt fyrir pör/hjón að setjast niður og ræða saman og tjá væntingar sínar er varðar heimilishaldið og skipuleggja hvernig verkum er skipt. Það er alla vega þess virði að reyna ef það gefur fleiri sælustundir í svefnherberginu.