Þetta er einn minn uppáhalds eftirréttur og svo sannarlega með betri súkkulaðikökum sem ég fæ.
Og mér finnst alltaf jafn gaman að bjóða upp á þessa litlu dásemd í matarboðum – enda rennur hún ljúflega ofan í gesti og þykir ætíð jafn góð.
Þessa uppskrift hef ég notað í ég veit ekki hversu mörg ár, en hún er upphaflega úr kökublaði Gestgjafans fyrir allmörgum árum síðan.
Það sem þarf í litlu syndina ljúfu
140 gr smjör (og meira til að smyrja formin)
140 gr 70% Nóa-Siríus súkkulaði
2 egg
3 eggjarauður
140 gr flórsykur
60 gr hveiti
Aðferð
Hitið ofninn í 220 gráður (ekki nota blástur).
Smyrjið 6 lítil form með smjöri.
Setjið smjör og súkkulaði saman í pott og bræðið við vægan hita.
Takið af hitanum um leið og smjörið er bráðið – og hrærið þar til súkkulaðið er alveg bráðið.
Þeytið egg og eggjarauður saman í skál og blandið síðan flórsykri saman við og þeytið vel.
Hellið þá súkkulaðiblöndunni saman við og þeytið á meðan.
Hrærið að lokum hveitinu saman við.
Skiptið síðan deiginu jafnt á milli formanna (um 1 dl. í hvert form). Passið að fylla þau ekki alveg.
Bakið kökurnar á grind eða í ofnskúffu í 11 til 12 mínútur án blásturs. Gætið þess þó að baka þær ekki of lengi því þá verða þær ekki jafn góðar. Við viljum að þær leki út þegar skorið er í þær.
Takið kökurnar út og látið kólna í svona 3 mínútur. Rennið þá hnífsblaði í kringum þær til að losa þær úr forminu.
Hvolfið kökunum á diska og sigtið flórsykur yfir og skreytið með berjum ef vill. Mér finnst það algjör óþarfi.
Yndislega gott að bera fram með ís eða léttþeyttum rjóma.
Njótið!
jona@kokteill.is