Ert þú ein/n af þeim skortir oft sjálfsaga og viljastyrk?
Það getur vissulega verið erfitt að standast freistingar, halda sér við efnið og drífa í hlutunum.
En viljir þú auka viljastyrkinn eru hér stórfínar æfingar sem eru sérstaklega ætlaðar til þess að hjálpa til við það.
Er raunverulega hægt að efla viljastyrk fólks?
Já það er hægt!
Í nýlegri rannsókn kom í ljós að viljastyrkurinn er eins og vöðvi, það er hægt að efla hann og styrkja eins og hvern annan vöðva líkamans. En eins og með alla líkamlega þjálfun getur hún tekið á til að byrja með, en að lokum verður auðveldara að halda sér við markmið sín og segja nei við freistingum.
Hér eru tíu einfaldar æfingar til að efla viljastyrkinn
1. Hugleiddu í 10 mínútur
Hugleiðsla er besta þjálfun sem þú getur gefið þér til að auka viljastyrkinn. Í hugleiðslu ertu að þjálfa hugann til að vera einbeittur og ekki reika.
Rannsóknir sýna að eftir aðeins tvo til þrjá daga þar sem þú temur þér hugleiðslu í aðeins tíu mínútur á dag, öðlastu meiri orku, stressið minnkar og þú verður einbeittari.
2. Einbeittu þér að góðri líkamsstöðu
Í rannsókninni voru þátttakendur beðnir um að vinna í tvær vikur í sinni venjulegu líkamsstöðu. Í hvert sinn sem þeir stóðu sig að því að vera bognir í baki leiðréttu þeir líkamsstöðuna og réttu úr sér.
Réttu því úr þér í hvert sinn sem þú stendur sjálfa/n þig að því að vera boginn í baki hvort sem þú ert heima eða í vinnunni. Þetta hljómar rosalega einfalt en það tekur viljastyrk að sitja beinn í baki. Í hvert sinn sem þú réttir úr bakinu er það eins og ein æfing fyrir viljastyrksvöðvann, eins og til dæmis ein magaæfing fyrir magavöðvana. Þessi æfing eykur þrautseigju svo um munar.
3. Haltu matardagbók
Í niðurstöðum þessarar rannsóknar kom í ljós að þeir sem halda matardagbók auka viljastyrkinn og sjálfsagann. Margir hafa ekkert yfirlit yfir það sem þeir borða á hverjum degi, þess vegna krefst viljastyrk að halda matardagbók, auk þess sem það felur í sér svo marga fleiri kosti.
Hægt er að sækja sér mörg matardagbókar smáforrit til að hlaða niður í símann sinn eða spjaldtölvuna. Haltu dagbókina í minnsta kosti tvær vikur og þú munt auka getu þína til að standast freistingar.
4. Notaðu gagnstæða hönd
Þessi æfing er svolítið furðuleg, en hún byggir á sömu hugmyndum og með líkamsstöðuna. Vísindamennirnir komust að því að með því að nota gagnstæða hendi til að gera suma hluti sem ríkjandi hönd þín er vön að gera eykurðu viljastyrkinn. Heilinn er forritaður til að nota ríkjandi höndina, svo það þarf viljastyrk til að nota hina gagnstæðu.
Þegar þú gerir þessa æfingu, ekki ætla þér um of. Það er nóg að taka bara brot úr degi til að framkvæma hana. Klukkutími er meira að segja nægur til að finna árangur.
5. Bættu málfarið
Önnur æfing sem vísindamenn mæla með er að vanda eigið málfar. Til dæmis hjá þeim sem eru vanir að blóta, þá gengur æfingin út að að standast freistinguna að blóta ekki. Eða þá að segja halló í staðin fyrir hæ. Eins og í fyrri æfingum tekur það viljastyrk til að breyta þessu.
Til að framkvæma þessa æfingu, veldu þá einhvern part af deginum til að æfa þig. Ef þú gerir þetta samviskusamlega í tvær vikur muntu finna að viljastyrkur þinn eykst til muna.
6. Settu þér markmið og lokafrest
Hver man ekki eftir því hvernig það var að vera í skóla og læra undir próf eða skila ritgerð á síðustu stundu. Maður þurfti á öllum sínum viljastyrk að halda til að vera einbeitt/ur þessar síðustu mínútur fyrir prófið eða skiladag.
Vísindamenn vilja meina að með því að nota sömu hugmyndafræði; það að setja sér markmið eða verkefni og ákveða dagsetningu þegar verkinu á að vera lokið efli viljastyrkinn.
Til að framkvæma þessa æfingu þá einfaldlega velurðu þér eitthvað af verkefnalistanum þínum. Helst eitthvað sem þú hefur verið að fresta lengi. Ákveddu dagsetningu sem verkefninu á að vera lokið og sjáðu til þess að þú gerir það.
7. Haltu utan um útgjöldin
Á sama hátt og margir halda matardagbók til að fylgjast með því sem þeir borða, þá eru færri sem fylgjast með útgjöldum sínum. Þessi æfing gengur ekki út á að setja upp eitthvað sparnaðarplan, þrátt fyrir að það sé frábær leið til að æfa viljastyrk.
En vísindamennirnir fundu út að með því einfaldlega að aga sig og hafa yfirsýn yfir í hvað peningarnir fara, bæti viljastyrkinn og um leið auðveldar það að standast freistingar um óþarfa kaup.
8. Kreistu handgrip
Þessi æfing er fyrir þá sem eru af öllu hjarta staðráðnir í því að auka viljastyrkinn. Kreistu handgrip þangað til þú getur ekki meir. Ef þú hefur einhvern tíma kreist handgrip þá veistu að þú finnur fljótlega fyrir miklum bruna í framhandleggnum. Það tekur því sjálfsaga til að halda áfram.
Fáðu þér handgrip og kreistu það með sitt hvorri hendinni til skiptis þar til þú getur ekki meir. Það að aga sig að halda áfram þrátt fyrir að þú sért farin/n að finna til eykur þrautseigju og úthald í öðrum krefjandi verkefnum.
9. Hafðu eitthvað mjög freistandi nálægt þér
Þú getur aukið getu þína til að segja nei við freistingum með því einfaldlega að hafa eitthvað mjög freistandi nálægt þér allan daginn. Vísindamennirnir prófuðu þetta á nokkrum þátttakendum í rannsókninni með því að láta þá bera Hersey‘s súkkulaðikossa á sér. Þeir sem stóðust freistinguna að borða þá ekki eru líklegri til að standast aðrar og meiri freistingar í lífinu.
Til að framkvæma þessa æfingu er ekki nauðsynlegt að bera eitthvað á sér allan daginn, en samt nógu lengi þannig að það freisti þín virkilega. Og með því að neita þér um það í hvert sinn sem þig langar eykurðu líkurnar á því að geta sagt nei við öðrum freistingum.
10. Vertu meðvituð/meðvitaður um sjálfvirkar ákvarðanir
Síðasta æfingin gengur út á að vera meira meðvituð/meðvitaður um þær ákvarðanir sem þú tekur í gegnum daginn.
Dag eftir dag rúllum við í ákveðinni rútínu þannig að sumar ákvarðanir eru bara sjálfvirkar – við hugsum ekki einu sinni út í það við bara framkvæmum. En það að taka sér tíma, staldra við og hugsa af hverju þú tekur sumar ákvarðanir á hverjum degi eykur einbeitni þína og um leið getu þína til að standast freistingar að sögn vísindamanna.
Þá er bara að byrja
Þá veistu það. Eins og hægt er að styrkja alla vöðva líkamans er líka hægt að efla viljastyrkinn og sjálfsagann. Og með því að nota æfingarnar hér að ofan muntu fljótt finna að þú styrkir einbeitingu, sjálfsaga og úthald. En ekki er mælt með að þú reynir að gera allar æfingarnar í einu.
Sérfræðingar mæla með að þú þjálfir sjálfstyrkingarvöðvann eins og að æfa fyrir maraþon. Þú byrjar smátt og hleypur stutt, en bætir þig og lengir leiðina þegar þú finnur getu þína aukast. Veldu því bara eina æfingu í einu til að bæta inn í þína daglegu rútínu og veldu það sem hentar þér og þínum markmiðum.
Greinin birtist á willpowered.co