Ég hef alltaf talið mig vera mikið jólabarn og ég veit að ég er jólabarn – ég er nú einu sinni fædd á einum af hinum þrettán dögum jóla.
En undanfarið hef ég verið að velta því fyrir mér hvort ég sé að glata þessu jólabarni innra með mér. Og hvort ég sé ef til vill búin að týna því! Ég vil ekki hugsa þá hugsun til enda að kannski sé ég orðin svona gömul og fúl. Er ég virkilega orðin eins og Trölli sem stal jólunum eða Skröggur sem þoldi ekki jólin?
Byrja að spila jólalögin í september
Ástæða þess að ég er að velta þessu fyrir mér er sú að á mínu heimili búa mikil jólabörn sem eru löngu farin að huga að jólum. Já, sumir á mínu heimili byrja að spila jólalögin í september. Mér finnst þetta eiginlega fullsnemmt. Ég er svo hrædd um að vera búin að fá leið á öllu sem tengist jólunum þegar þau loksins koma ef aðdragandinn er svona langur.
En það eru ekki eingöngu heimilismeðlimir sem eru komnir í jólagírinn því það er enn október og samt dynja á mér auglýsingar, alls staðar, tengdar jólunum. Jólin virðast alveg vera að koma hjá sumum og ég veit ekki hvort það er bara ég en svo virðist sem jólin færist framar með hverju árinu.
Sem barn þótti maður bilaður ef maður spilaði jólalög fyrir 1. desember. Og ég man að mér þótti það ferlega fúlt að mega ekki byrja fyrr. Þannig að þegar ég komst á fullorðinsár þá stalst ég oft til þess með góðum mágkonum að spila nokkur lög í byrjun nóvember. Ég meina það er nú svo stutt í aðventuna þegar nóvember er kominn 😀
Skipulag gerir aðventuna svo miklu notalegri
En auðvitað er jólabarnið ég samt löngu byrjað að plana jólin. Það er samt ekki það sama og að vera kominn í jólagírinn. Að skipuleggja sig vel gerir nefnilega aðventuna svo miklu skemmtilegri og afslappaðri. Þannig að ég er langt komin með að klára gjafkaupin í huganum – á bara eftir að fara í verslanirnar að sækja þær. Svo er jólamatseðillinn auðvitað kominn á hreint og miðar á jólatónleika klárir.
Þá get ég ekki heldur beðið eftir því að byrja að baka jólasmákökurnar, fylla húsið af góðri lykt og æra nágrannana með jólalögum. Kannski eftir allt saman er ég ekkert búin að týna jólabarninu mínu og hef innst pínulítið gaman af þessum fjölskyldmeðlimum mínum sem hlusta á jólalögin í september. En við skulum hafa hljótt um það og halda því bara okkar á milli!
Jóna jólabarn