Nú kætast líklega einhverjir sem ekki eru duglegir að búa um rúmið sitt strax á morgnana. Og sumir geta líka sagt; „ég sagði það mamma“.
En það er víst vísindalega sannað að betra sé að leyfa rúminu að vera óumbúið … alla vega í einhvern tíma.
Myndast kjöraðstæður fyrir rykmaura
Það sem gerist þegar búið er um rúmið um leið og farið er á fætur er að sængin og aðrar ábreiður loka inni milljónir af rykmaurum sem eru í rúmunum okkar. En þessir rykmaurar lifa á dauðum húðfrumum okkar og svita – og þegar við breiðum svona yfir þá myndast kjöraðstæður fyrir þá til að lifa sældarlífi. Hitinn, svitinn og dauðu húðfrumurnar eru það sem þessar verur þrífast á.
Ofnæmi og astmi
Svona rykmaurar í rúmi geta leitt til astma og ofnæmisvandamála. En það er þó ekki tilvera þeirra sem veldur þessu heldur það sem þeir skilja eftir sig. Úrgangur þeirra ýtir t.d. undir bæði rykofnæmi og astma.
Óumbúið rúm hins vegar gerir þessar verur berskjaldaðar gagnvart fersku lofti og ljósi – og hjálpar til við að þurrka þær upp svo þær drepist. Vísindamenn telja að það geti verið allt að ein og hálf milljón maura í einu rúmi. Það er nefnilega það!
Það er því greinilega málið að gera allt annað um morguninn en að búa strax um rúmið sitt. Sérfræðingar mæla með því að klára öll önnur morgunverk áður en farið er í að búa um rúmið og auk þess segja þeir mikilvægt að skipta um á því í hverri eða annarri hverri viku.
Nú svo er þetta líka fín afsökun fyrir okkur öll sem erum löt að búa um og sleppa því bara – og leyfa loftinu að leika um rúmið. Enda er það víst bæði gott fyrir okkur og rúmið!