Neikvæðni getur haft slæm áhrif á líf okkar og segja má að það sé ekkert gott við hana. Því hún gerir ekkert annað en að láta okkur líða illa og draga okkur niður.
Lífið verður svo miklu betra
Oft finnum við okkur í erfiðum aðstæðum og þá er auðvelt að detta í neikvæðnina. Ákveðnir einstaklingar geta líka kynt undir neikvæðni í okkar lífi. Þess vegna er mikilvægt að þekkja neikvæða orku og hugsanir sem leiða til neikvæðni svo hægt sé að útiloka það úr lífi sínu.
Lífið verður svo miklu betra þegar maður losar sig við neikvæðnina. Það bæði bætir samskipti okkar við annað fólk og það hvernig við sjáum lífið.
Hér eru nokkur góð ráð til að losa sig við neikvæðnina
Reyndu að finna uppsprettu neikvæðninnar
Hvaðan kemur þessi neikvæðni?
Veltu hugsunum þínum fyrir þér og hvaða hugsanir það eru sem hafa þau áhrif á þig að þú fyllist neikvæðni. Ef þú vilt losna við hana þarftu að komast að rót vandans. Þess vegna er mikilvægt að þú efist aðeins um þínar eigin hugsanir og endurskoðir þær gaumgæfilega. Síðan geturðu byrjað á því að útiloka þessar hugsanir og losa þig frá þessari neikvæðu orku.
Neikvæður hugur leiðir ekki til jákvæðs lífs – svo einfalt er það!
Hugsaðu í lausnum ekki vandamálum
Þegar þú hefur komist að rót vandans og veist hvaða hugsanir það eru sem kynda undir þessa neikvæðu orku er næsta skref að uppræta þær fyrir fullt og allt. Og auðvitað að útiloka að þær skjóti upp kollinum í framtíðinni.
Að hugsa í lausnum en ekki vandamálum hjálpar þér að útiloka neikvæðnina og þar með öll þau vandamál og leiðindi sem henni fylgja.
Hugsaðu að allt sé mögulegt
Þeir sem eru hamingjusamir og jákvæðir eru það ekki af því að líf þeirra er dans á rósum. Erfiðleikar og slæmir hlutir banka líka upp á hjá þeim. En þeir vita hvernig á að taka á erfiðum málum.
Þeir hamingjusömu mæta alveg sömu áskorunum og aðrir en munurinn er sá að þeir vona það besta en búast við hinu versta – og síðan einbeita þeir sér að því að finna bestu mögulegu lausnina.
Að sætta sig við að stundum fái maður góð spil á hendi og stundum ekki getur breytt miklu og ef þú horfir jákvætt á hlutina er mun auðveldara að vinna úr því. Lykillinn er að festast ekki í neikvæðninni því hún leysir nákvæmlega ekkert.
Ekki burðast með neikvæðni annarra
Ekki gleyma því að neikvæð orka í þínu lífi snýst ekki alltaf aðeins um þig.
Þótt þú vissulega berir ábyrgð á þinni eigin neikvæðni er mikilvægt að átta sig á því að þú þarft ekki líka að burðast með neikvæðni annarra. Ekki taka þátt í slíku og reyndu að aðskilja þig frá þannig umhverfi.
Sættu þig við það eða slepptu takinu
Það er þannig með allt í lífinu hvort sem það er jákvætt eða neikvætt að við höfum tvo kosti; annað hvort að sætta okkur við það eða losa okkur við það.
Þegar neikvæð orka einkennir líf þitt er augljóst að breytinga er þörf. En það þýðir samt ekki að allt breytist á einni nóttu. Þetta tekur tíma. Oft erum við föst í vítahring og hann þarf að rjúfa svo hlutirnir breytist. Þú þarft að gera það sem er best fyrir þig sjálfa/n, þína geðheilsu og almenna hamingju.
Það getur verið mjög erfitt að rjúfa vítahringinn og losa sig við eitthvað sem áður skipti þig máli. En þegar hlutirnir eru farnir að íþyngja manni um of þá er tími til kominn að sleppa takinu. Reyndu að finna hvað það er sem lætur þér líða illa og vekur upp neikvæðni og losaðu þig við það – þótt það geti verið sárt. Því þegar upp er staðið er það betra fyrir þig.
Umvefðu þig jákvæðu fólki
Mikilvægt er að velja vel það fólk sem þú umgengst – þetta skiptir mjög miklu máli.
Á meðan sumir láta þér líða vel hafa aðrir þveröfug áhrif á þig. Sumir gefa þér orku og þú finnur jákvæðnina streyma frá þeim á meðan aðrir sjúga úr þér orku og neikvæðnin lekur af þeim.
Ef við umgöngumst fólk sem vekur upp neikvæðar hugsanir og tilfinningar hjá okkur getur verið erfitt að halda í jákvæðnina. Því hvort sem okkur líkar betur eða verr þá hefur annað fólk áhrif á okkur á einhvern hátt – svo það borgar sig að vanda valið.