Það er alltaf áhugavert að heyra um nýjar aðferðir til að nota þær náttúrulegu vörur sem við eigum í eldhússkápunum.
Við erum t.d. mjög áhugasöm um notkunarmöguleika matarsódans og höfum bent á hinar ýmsu og ólíku leiðir til að nota hann.
Og svo er það eplaedik
En það er svo sannarlega fleira í eldhússkápunum sem hægt er að nota og höfum við til að mynda einnig fjallað lítillega um eplaedik og hvernig má nota það á ólíka vegu.
Eplaedikið á til dæmis alveg líka heima í baðskápnum. Edikið hefur nefnilega marga góða kosti sem gagnast vel í umhirðu hárs og húðar.
Hér eru nokkrir notkunarmöguleikar eplaediks
Sem hreinsiefni í hárið
Það er mjög gott að hreinsa hárið annað slagið vel og losa það alveg við öll þau efni sem við setjum í hárið dags daglega. Venjulegt sjampó nær ekki að gera það en eplaedik er hins vegar góð leið til þess. Blandaðu fimm dropum af eplaediki saman við kalt vatn í skál. Þvoðu hárið eins og venjulega, settu hárnæringuna í það og skolaðu hana vel í burtu. Settu síðan eplaedikið í skálinni í rótina á hárinu. Það má síðan alveg leyfa edikinu að vera í hárinu en það gefur aukinn glans.
Við flösu
Eplaedik inniheldur náttúruleg efni sem vinna gegn sveppum og hentar þar af leiðandi einstaklega vel til að vinna á flösunni sem myndast í hársverðinum. Útbúðu þitt eigið hreinsisjampó með því að blanda saman til helminga vatni og eplaediki. Settu þetta í spreybrúsa og úðaðu í hársvörðinn.
Við kláða, útbrotum og exemi
Farðu í eplaediksbað – og settu einn bolla af ediki út í baðvatnið. En eplaedik hefur bólgueyðandi eiginleika sem hefur góð áhrif á kláða í húðinni sem orsakast t.d. af exemi eða psoriasis.
Fyrir húð líkamans frá toppi til táar
Sýrustig eplaediks hjálpar til við að minnka svitaholur og er gott fyrir þurra húð. Settu nokkra dropa af edikinu í uppáhalds kremið þitt og berðu á allan líkamann. Og það er líka mjög gott að setja edik í andlitskremið.
Við útbrotum eftir rakstur
Bæði karlar og konur þekkja það að fá útbrot og viðkvæma húð eftir rakstur, hvort sem það er í andliti, á fótum, undir höndum eða annars staðar á líkamanum. Eplaedik getur bætt úr því en það eru fyrrnefndu bólgueyðandi áhrifin sem virka á útbrotin. Settu eplaedik í bómullarskífu og strjúktu yfir viðkvæmt svæðið – edikið dregur úr roða og eymslum og sótthreinsar svæðið.
Við táfýlu
Eiginleikar eplaediks sem vinna gegn sveppum geta líka hjálpað til við táfýlu. Blandaðu einum bolla af ediki og fjórum bollum af vatni saman í bala og skelltu fótunum í fótabað. Leyfðu fótunum síðan að liggja í balanum í svona 15 mínútur.
Við sólbruna
Blandaðu saman einum hluta eplaediks á móti fjörum hlutum vatns. Taktu mjúkan klút og bleyttu með blöndunni og leggðu á brunann. Það eru bólgueyðandi eiginleikarnir sem vinna gegn blöðrumyndun og draga úr bólgu og roða.
Til að þrífa förðunarburstana
Ef þú vilt sótthreinsa burstana þína í stað þess að þrífa þá eingöngu með vatni og sápu þá er eplaedik málið. Skelltu förðunarburstunum í blöndu af vatni og ediki og leyfðu þeim að liggja smá stund.