Stundum langar mann bara í eitthvað smá „djúsí“ og gott. Og þá er snilld að geta búið til eina múffu í einu.
Frábærar sem kvöldsnarl og í morgunmatinn um helgar – eða bara á mánudegi ef mann langar. Og svo eru þær borðaðar með skeið. Einfalt, fljótlegt og sniðugt!
Þá getur verið skemmtilegt að leyfa smáfólkinu að búa sér til sínar eigin múffur en þau ættu að ráða við þessa einföldu aðferð.
Það sem þarf
¼ bolli hveiti
1 matskeið púðursykur
¼ teskeið lyftiduft
1/8 teskeið salt
örlítinn kanil
½ matskeið mjúkt smjör
2 matskeiðar mjólk
1-2 matskeiðar bláber (fersk eða frosin)
Aðferð
Notið könnu/bolla sem þolir að fara í örbylgjuofn.
Setjið hveiti, sykur, lyftiduft, salt og kanil í könnuna og hrærið vel saman með gaffli.
Bætið smjörinu við og blandið vel saman – gætið þess að smjörið sé ekki í klessum og notið puttana til að kremja smjörið ef svo er. Áferðin á að vera eins og rakur sandur.
Bætið mjólkinni saman við og hrærið vel. Nú ætti þetta að líkjast múffudeigi.
Ef deigið er of þurrt bætið þá smá mjólk út í.
Setjið þá bláberin út og blandið þeim mjög varlega saman við.
Setjið í örbylgjuofninn á hæstu stillingu og bakið í 1 ½ mínútu.
Mikilvægt er að ofbaka ekki.
Fyrir þá sem vilja getur verið gott að dreifa örlitlu af hunangi eða hlynsírópi yfir þegar kannan er tekin út.