Ekki er víst að allir geri sér grein fyrir því hversu stór þáttur hormóna líkamans er í okkar lífi.
Í raun og veru stjórna hormónarnir öllu og þeir hafa áhrif á allt sem við gerum, segjum og hugsum. Það er því augljóst að séu hormónarnir ekki til friðs getur það flækt lífið aðeins.
Já blessaðir hormónarnir stjórna okkur meira en okkur órar fyrir.
Hormónarnir gera allt vitlaust
Á tveimur æviskeiðum lífsins geta hormónarnir gert allt vitlaust. Þá geta þeir ómögulega haft stjórn á sér og við sitjum uppi með allt sem því fylgir. Breytingaskeið kvenna (og karla líka) getur tekið á en þá eru hormónarnir einmitt í essinu sínu og ýmislegt sem breytist.
En konur á breytingaskeiði eru þó ekki þær einu sem þurfa að ganga í gegnum líkamlegar breytingar því eins og við vitum þá fara unglingar líka í gegnum ferli mikilla breytinga á kynþroskaskeiðinu.
Mæður eru því kannski ekki þær einu í fjölskyldunni sem eru að ganga í gegnum tímabil breytinga. Ef þú stóðst í barneignum á aldrinum 25-35 ára ertu líklega með einn eða fleiri ungling á heimilinu sem er að ganga í gegnum eitthvað svipað. Um það leyti sem þú ferð að finna fyrir fyrstu einkennum breytingaskeiðsins er unglingurinn þinn (eða unglingarnir þínir) að ganga í gegnum kynþroskann og gelgjuskeiðið. Þú ert búin að fara í gegnum það tímabil og manst hvernig líkaminn og skapið voru algjörlega í klessu á þessum tíma. Allt breyttist á skömmum tíma og aðlögunin tók á. Sumar breytingarnar voru auðvitað góðar en aðrar mjög erfiðar.
Óútreiknanlegar tilfinningar
Unglingar þurfa líka að kljást við hormónabreytingar og þeir vita á köflum ekkert hverjir þeir eru – þeir eru hvorki börn né fullorðnir. Tilfinningar þeirra eru óútreiknanlegar og rokka upp og niður, þau geta verið reið, rugluð, elskuleg, hatursfull, barnaleg, fullorðinsleg, kát, leið, einmana og spennt.
Móðir á hormónaflökti og barn á gelgjuskeiði getur verið eldfim blanda. Bæði eru að reyna að átta sig á því hver þau eru sem getur óneitanlega skapað togstreitu þeirra á milli. Á hinn bóginn er þessi tími kjörið tækifæri til að tengjast barninu á nýjum grunni því bæði eru að ganga í gegnum breytingar og því ætti að vera auðveldara að skilja hvernig barninu líður.