Við heyrum mikið talað um að holl og góð næring sé nauðsynleg fyrir líkamlega heilsu. Ákveðnar fæðutegundir séu t.d. góðar fyrir hjartað og aðrar góðar fyrir betri meltingu og svo framvegis.
En það er sjaldnar sem maður heyrir að eitthvað sé gott fyrir heilann. Engu að síður sýna í dag sífellt fleiri rannsóknir fram á að mikilvægt sé að gefa heilanum rétta næringu.
Rétt mataræði talið minnkar líkur á Alzheimer
Talið er að með réttu mataræði megi minnka líkur á Alzheimer um allt að 53 prósent. Þetta á við ef ákveðnu mataræði er fylgt strangt eftir. Engu að síður þykir sýnt að þeir sem leitast við að borða vissar fæðutegundir geti stórminnkað líkurnar á því að þróa með sér Alzheimer. En sérfræðingar telja mataræði vera einn þátt í því að fá sjúkdóminn. Aðrir þættir eru hreyfing, reykingar, menntun og erfðir.
Á meðan ákveðnar fæðutegundir eru góðar fyrir heilann eru aðrar slæmar fyrir hann.
Hér er listi bæði með þeim góðu og þeim sem við ættum að forðast
Grænt kál og allt annað grænmeti
Mælt er með því að borða grænt kál að minnsta kosti tvisvar í viku en til að áhrifin verði sem mest fyrir heilann er mælt með því að fá sér sex eða fleiri skammta á viku. Grænkál, spínat, brokkolí og annað grænt kál er stútfullt af A- og C-vítamíni sem er talið gott fyrir heilbrigði heilans.
Þá er allt annað grænmeti líka talið mikilvægur þáttur í heilbrigði heilans. Sérfræðingar mæla með því að borða salat og að minnsta kosti eina aðra grænmetistegund á hverjum degi til að minnka líkur á Alzheimar.
Heilkorna matvara
Heilinn þarfnast orku eins og önnur líffæri líkamans. Ef hann fær ekki þessa orku getur hann ekki einbeitt sér. Þess vegna er heilkorna matvara heilanum mikilvæg svo hann starfi rétt. Sérfræðingar mæla með þremur skömmtum af kornvöru á dag en þá má fá úr brauði, pasta og grófu morgunkorni.
Ber
Bláber þykja alveg einstaklega góð fyrir heilann og minnisleysi og nú þykir líka sýnt að jarðaber séu heilanum góð. Mælt er með því að borða ber að minnsta kosti tvisvar í viku.
Hnetur
Þær eru frábær millibiti og góðar fyrir heilbrigði heilans. Hnetur innihalda góða fitu, trefjar og andoxunarefni. Sérfræðingar mæla með að borða hnetur að minnsta kosti fimm sinnum í viku til að gera heilanum gott.
Fiskur
Feitur fiskur sem er ríkur af Omega-fitusýrum er talinn hafa góð áhrif á heilann og því er mikilvægt að hafa fisk inni í mataræðinu.
Misjafnt er hversu oft er talið nauðsynlegt að neyta fisks en lágmark er alla vega einu sinni í viku. En auðvitað er gott að borða fisk oftar en það. Omega-fitusýrur má meðal annars finna í laxi, silungi, sardínum og síld.
Ólífuolía
Sannað þykir að þeir sem nota fyrst og fremst ólífuolíu í eldhúsinu séu í minni hættu á að þjást af heilabilun.
Rauðvín
Eitt glas af rauðvíni á dag er talið gott fyrir heilann. Það eru andoxunarefnin í víninu sem hafa þessi góðu áhrif. Þeir sem ekki drekka vín ættu að gæta þess að borða vel af berjum.
Baunir
Sérfræðingar mæla með að borða baunir þrisvar í viku til að minnka líkur á Alzheimer. Þannig að ef baunir eru ekki inni í fæðunni þá er um að gera að bæta þeim við. Baunir eru prótein- og trefjaríkar og innihalda litla fitu og fáar hitaeiningar.
Fuglakjöt
Kjúklingur, kalkúnn og aðrir alifuglar eru hluti af þeirri fæðu sem þykir góð fyrir heilbrigði heilans. Mælt er með því að borða tvo eða fleiri skammta af fuglakjöti á viku.
Nú vitum við hvað við eigum að borða fyrir heilbrigði heilans – en hvaða fæðutegundir ættum við þá að forðast?
Rautt kjöt
Þrátt fyrir að rautt kjöt sé ekki á bannlista þá er mælt með því að takmarka neyslu þess. Talað er um einn til fjóra skammta á viku og alls ekki meira en það.
Smjör og smjörlíki
Takmarka ætti neyslu bæði smjörs og smjörlíkis við minna en eina matskeið á dag. Hægt er að nota ólífuolíu í staðinn.
Ostur
Fyrir ostafólk gæti þetta reynst erfitt. En mælt er með því að borða ost ekki oftar en einu sinni í viku til að minnka líkur á Alzheimer.
Kökur og sætindi
Ekki nóg með að sætindi séu slæm fyrir líkamann heldur er einnig talið að kökur, kex og annað slíkt hafi neikvæð áhrif á heilann.
Sérfræðingar ráðleggja fólki að láta ekki eftir sér að neyta nema fimm skammta af slíku á viku. Svo eru sumir sem vilja og geta sleppt þessu alveg.
Djúpsteiktur matur og skyndibiti
Skynsamlegt þykir að takmarka þessa fæðu við einu sinni í viku fyrir heilbrigði heilans.