Þessi sjúkdómur er líklega mun algengari en við gerum okkur grein fyrir og hann er arfgengur. Engu að síður getur hann einnig átt sér sínar skýringar.
Margir kvarta yfir óþægindum og pirringi í fótum sem lýsir sér í eirðarleysi, stingjum, doða, sviða og óstöðvandi þörf fyrir að hreyfa fótleggina. Óþægindin ná frá ökkla og upp á mið læri.
Þetta er mjög algengt enda hefur stundum verið talað um eirðarleysi í fótum sem algengasta sjúkdóm sem við höfum aldrei heyrt talað um.
Arfgengt en getur þó átt sér sína skýringu
Þeir sem þjást af fótaóeirð eiga erfitt með að vera kyrrir og finna sér góðar stellingar þegar þeir eru komnir upp í rúm á kvöldin. Þá vakna sumir upp á nóttunni með verki og eiga erfitt með að sofna aftur. Þetta getur hrjáð fólk af báðum kynjum og á öllum aldri en verður þó algengara eftir því sem við eldumst.
Talið er að þetta geti verið arfgengt og er t.d. ekki óalgengt að konur þjáist af eirðarleysi í fótum ef það hefur þjakað mæður þeirra. Yfirleitt finnst ekki nein skýring á þessu og er sama sem ekkert vitað um orsakir sjúkdómsins.
Fótaóeirð getur þó átt sér sínar skýringar en hún getur verið fylgifiskur sykursýki og nýrnabilunar eða tengst skorti á B12-vítamíni, fólínsýru og járnskortsblóðleysis. Þá getur þetta einnig fylgt Parkinsons-sjúkdómnum og áfengissýki. En eins og áður kom fram er lang algengast að engin sérstök skýring sé á fótaóeirðinni.
Engin lækning til
Lítið er hægt að gera við eirðarleysi í fótum og er engin varanleg lækning til. Það er mjög einstaklingsbundið hvað hentar hverjum og einum en sumum hefur gagnast að taka verkjalyf og vöðvaslakandi lyf. Aldrei ætti þó að taka mikið af verkjalyfjum án samráðs við lækni og það má ekki gleymast að mörg þeirra hafa slæmar aukaverkanir.