Við erum svo lánsöm að búa við það í dag að eiga val um flesta hluti.
Flest höfum við val um hvernig við viljum lifa lífinu og hvernig við viljum hafa hlutina. Og sem betur fer vilja ekki allir það sama.
En ekki er þar með sagt að það sem hver og einn velur sér í lífinu sé fullkomlega „samþykkt“ af samfélaginu. Margir hafa skoðun á öllu og eru fljótir að setjast í dómarasætið. En oft vill það gleymast að sumt kemur okkur einfaldlega ekki við.
Endalausar spurningar og afskiptasemi
Barneignir er t.d. eitt af því sem margir hafa skoðun á. Í okkar samfélagi þykir alveg eðlilegt að kona eigi barn utan hjónabands og ali það upp ein. Flestir skilja það og sjá ekkert athugavert við það. En þegar kona á engin börn og hyggst ekki eignast börn þá verða margir voðalega hissa.
Barnlaus kona fær endalausar spurningar og athugasemdir varðandi barnleysið. Sem er mjög sérstakt – enda er þetta eitt af því sem okkur kemur ekki við? Gift barnlaus kona þarf allt of oft að verja það að hún eigi engin börn. Spurningar eins og hvenær eigi nú að fjölga mannkyninu eru algengar. Síðan dregur fólk þá ályktun að líklega geti þau hjónin ekki eignast börn og það hljóti að vera ástæðan fyrir barnleysinu. Ef kona er hins vegar einhleyp og barnlaus er sú ályktun dregin að hún hafi bara ekki enn hitt þann eina rétta.
Hafa hvorki löngun né áhuga á því að fæða barn í þennan heim
Konur sem eiga börn hafa áhyggjur af þeim barnlausu og finnst þær fara á mis við svo mikið í lífinu. Þær benda þeim á að þær hafi ekki hugmynd um hverju þær séu að missa af og að líklega geri þær sér enga grein fyrir því fyrr en þær eignist börn að það var einmitt þetta sem vantaði í líf þeirra.
Staðreyndin er nú samt bara sú að það hafa ekki allar konur áhuga á því að verða mæður. Þær hafa hvorki löngun né áhuga á því að fæða barn í þennan heim. Og er það ekki bara alveg í lagi? Kemur okkur hinum það eitthvað við? Einhvern veginn finnst fólki þetta samt ekki vera rétt – þetta passar ekki inn í samfélagið.
Af hverju setjum við þessa pressu á konur?
Þótt ég sjálf hafi haft áhuga og löngun til þess að eignast börn get ég ekki gengið út frá því að næsta kona sé eins. Og þótt ég njóti þess að vera móðir get ég ekki gert ráð fyrir að svo sé um allar konur. Við ættum að fagna því að vera ekki allar eins og taka tillit til þess að móðurhlutverkið hentar ekki öllum. Konur sem kjósa að vera barnlausar eru ekkert minni konur fyrir vikið – og þær eru heldur ekkert eigingjarnari en aðrar.
Vil fá að vera í friði með mitt val
Konur sem segja hreint út að þær vilji ekki eignast börn vekja undrun hjá öðrum og eru oft litnar hornauga. Þær finna flestar fyrir mikilli pressu frá samfélaginu og ekki síður fólkinu í kringum sig og sumar hreinlega gefast upp á endanum og eignast barn þrátt fyrir enga löngun. Við vitum alveg að það eru til óánægðar mæður og er ekki ólíklegt að það séu einmitt konurnar sem höfðu enga sérstaka löngun til að eignast börn. En gerðu það samt.
Leyfum þeim konum sem eru barnlausar að vera í friði með ákvörðun sína. Hættum að spyrja þær endalaust hvenær eigi nú að koma með eitt. Ég vil fá að vera í friði með mitt val í lífinu og vil ekki láta segja mér sí og æ hvernig ég eigi að lifa því. Það er fullt af öðrum hlutverkum í lífinu sem ég myndi persónulega ekki vilja vera í en hentar öðrum fullkomlega. Sem betur fer er nefnilega enginn eins.
Jóna Ósk Pétursdóttir – kokteilllinn@gmail.com