Þessi er aldeilis girnilegur en þetta er salvíu- og sítrónugraskryddaður kjúklingur með maísmauki að hætti Úlfars Finnbjörnssonar listakokks. Uppskriftin er úr Stóru alifuglabókinni sem kom út hjá Sölku bókaútgáfu.
Það sem þarf
1 heill kjúklingur
1 msk. salvía, smátt söxuð
1 msk. rifið sítrónugras
2 msk. steinselja, smátt söxuð
1-2 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir (má sleppa)
100 g smjör, bráðið
salt og nýmalaður pipar
400 g kartöflur, skornar til helminga
2 msk. olía
2 msk. tímían
Aðferð
Smeygið hendinni undir haminn á kjúklingnum við hálsinn og losið hann frá bringunum og alveg niður að lærum.
Blandið saman salvíu, sítrónugrasi, steinselju, hvítlauk og bráðnu smjörinu og hellið undir haminn.
Stráið salti og pipar yfir fuglinn, færið yfir í eldfast mót og raðið kartöflum með sárið upp í kringum fuglinn.
Penslið kartöflurnar með olíu og stráið salti, pipar og tímíanlaufum yfir.
Það er alltaf góð hugmynd að binda lærin saman með seglgarni. Fuglinn verður fallegri og lærin safaríkari.
Bakið fuglinn í 180°C heitum ofni í 60-70 mínútur eða þar til kjarnhiti hans nær 70°C.
Berið kjúklinginn fram með kartöflunum, maísmaukinu og salati.
Maísmauk
300 g maís, ferskur, frosinn eða niðursoðinn
2 dl rjómi, mjólk eða rjómabland
salt og nýmalaður pipar
30 g smjör
Aðferð við maísmaukið
Setjið allt í pott nema smjör og sjóðið við vægan hita í 10 mínútur. Hrærið reglulega í með sleif.
Færið þá allt úr pottinum í matvinnsluvél og maukið vel ásamt smjörinu.
Berið fram heitt.