Margir leita annarra og náttúrulegri leiða en framleiddra lyfja til að lina verki og bólgur í líkamanum.
Notkun okkar Íslendinga þykir farin úr hófi fram á mörgum lyfjum, eins og t.d. Íbúfeni og því vel þess virði að skoða hvort ekki megi minnka þá notkun. En lyfið virkar vel á bólgur og verki og vilja sumir meina að það hreinlega virki á flesta kvilla.
En aukaverkanir af lyfinu geta verið töluverðar og óvarleg neysla getur haft slæmar afleiðingar í för með sér. Eins og með flest önnur lyf fylgja Íbúfeni, og öðrum bólgueyðandi lyfjum, bæði kostir og gallar og þarf því að vega og meta það þegar lyfið er tekið.
Mikill heilsufarslegur ávinningur
En fyrir þá sem vilja leita annara leiða og vera lausir við að taka mikið af verkjalyfjum við bólgum gæti verið nóg að fara í kryddhilluna á heimilinu. Rannsókn sem birt var í Journal of Alternative and Complementary Medicine þykir sýna fram á að neysla túrmeriks geti t.d. hjálpað við slitgigt í hnjám. Efnið polyphenol, betur þekkt sem curcumin, sem finna má í túrmeriki er talið hafa mikinn heilsufarslegan ávinning í för með sér.
Í þessari rannsókn tóku þátt einstaklingar með sögu um slitgigt í hnjám. Þeim var skipt upp í tvo hópa þar sem annar hópurinn fékk 800 mg af íbúprófeni á dag í sex vikur á meðan hinn hópurinn fékk 2000 mg af túrmeriki.
Skoðað var hvort og hvernig verkir breyttust eða minnkuðu, hvernig fólkinu gekk að ganga og fara upp og niður stiga. Að sex vikum liðnum mátti sjá töluverðar úrbætur hjá báðum hópum en þeir sem fengu túrmerik sýndu þó örlítið betri frammistöðu við gang og kvörtuðu síður undan verkjum við að ganga stigana. Þá voru þeir sem fengu túrmerkið sáttari með sjálfa sig og meðferðina sem slíka á meðan hinir voru ekki ánægðir.
Notuð sem lækningajurt frá því um 600 fyrir Krist
Jurtin túrmerik hefur verið notuð sem krydd, lækningajurt og litarefni í Suðaustur-Asíu frá því um 600 fyrir Krist. Hér er því um ævaforna aðferð að ræða. Jurtin hefur verið notuð um aldir gegn bólgum í líkamanum, liðagigt, magavandamálum, ýmsu ofnæmi, lifrarvandamálum og brjóstsviða. Þetta er eitt öflugasta andoxunarefni svo vitað sé. Það er því greinilega vel þess virði að leita allra leiða til að bæta túrmeriki við fæðuna í einhvers konar formi.
Það er nokkuð einfalt að bæta túrmeriki í matinn þegar eldað er en síðan má líka taka þessa undrajurt inn sem fæðubótarefni.