Þessi litlu dökkbláu og ljúffengu ber eru afar góð fyrir okkur og einmitt þess vegna er þau að finna á hverjum einasta lista sem gerður hefur verið yfir ofurfæðu. Það hlýtur að segja eitthvað!
En til að skerpa enn frekar á því hvers vegna við ættum að borða bláber eru hér fimm ástæður
1. Bláber eru yfirleitt fáanleg
Ef þú getur ekki tínt þau úti í móa þá geturðu gengið að þeim vísum í næstu verslun. Eða svona oftast alla vega. Það er mun auðveldara að fá bláber en mörg önnur ber. Ef þau fást ekki fersk þá er nær alltaf hægt að fá frosin ber.
2. Bláber eru stútfull af andoxunarefnum
Sem þýðir að þau eru einstaklega góð fyrir húðina þar sem þau eiga sinn þátt í því að koma í veg fyrir niðurbrot byggingarefna hennar.
Andoxunarefni hafa auk þess margvísleg jákvæð áhrif á heilsuna þegar þeirra er neytt í formi matvara en ekki sem fæðubótarefni.
3. Bláber eru næringarrík
Þau eru góð uppspretta margvíslegra B-vítamína sem líkaminn þarfnast til að breyta fæðu í orku. Þá innihalda þau einnig C- og E-vítamín og steinefni eins og sink og járn.
4. Bláber innihalda fáar hitaeiningar
Þér er óhætt að gúffa í þig bláberjum án þess að hafa áhyggjur af því að það hafi áhrif á mittismálið. Einn bolli af bláberjum telur ekki nema um 80 hitaeiningar. Þau eru trefjarík svo þau eru líka góð fyrir meltinguna. Sem sagt frábært snarl á milli mála.
5. Bláber eru bragðgóð
Eitt það besta við bláberin er hvað þau eru bragðgóð. Maður getur setið með skál og tínt upp í sig sem er auðvitað margfalt hollara en að sitja t.d. með snakk. Þá eru þau snilld í eftirréttinn, þeytinginn, skyrið, jógúrtið, salatið og… þau má endalaust nota í uppskriftir af ýmsu tagi.
Bættu bláberjum inn í fæðuna!