Ég á varla til orð til að lýsa því hversu hrifin ég varð af Birmingham í Englandi þegar ég kom þangað í byrjun desember 2014.
Satt að segja bjóst ég ekki við neinu enda var tilgangur ferðarinnar ekki sá að heimsækja borgina.
Tilgangur ferðarinnar var nefnilega fyrst og fremst sá að sjá söngvarann Michael Bublé á tónleikum – sem var langþráður draumur. En það að fá að heimsækja nýja borg í leiðinni var svo sannarlega bónus. Enda alltaf gaman að koma á nýja staði.
Allt innan seilingar
Og Birmingham kom vægast sagt á óvart. Þetta er ein af þessum borgum sem hefur allt að bjóða þeim sem vilja fara í stuttar borgarferðir og njóta alls þess besta. Góð hótel, frábærir veitingastaðir, menning og glæsileg verslunaraðstaða.
Í borginni er allar helstu tískuverslanir að finna, en Birmingham er önnur stærsta borg Englands. Þrátt fyrir það upplifir maður ekki að hér sé um svo mikla stórborg að ræða og að mínu mati er það einmitt stærsti kostur borgarinnar hvað miðbærinn er aðgengilegur. Ef gist er á hóteli inni í borginni getur maður labbað í allt og það er bókstaflega allt innan seilingar. Sem er auðvitað frábært því þannig nýtist tíminn líka svo vel.
Yndislegt á aðventunni
Eins og áður sagði var ég þarna í byrjun desember, sem sagt á aðventunni. Það reyndist vera einstaklega góður tími til að heimsækja Birmingham og varð tónleikaferðin líka að skemmtilegri og óvæntri aðventuferð. Alltaf svo gaman þegar ferðalög taka svona óvænta stefnu.
En borgin var mjög jólaleg, fallega skreytt og setti risastór jólamarkaður punktinn yfir i-ið. Já markaðurinn var í miðbænum – en eins og ég sagði þá er allt í göngufæri. Og það er fátt skemmtilegra á aðventunni en að rölta um fallega skreyttan miðbæ, kíkja á jólamarkað og enda síðan á góðum veitingastað. Markaðurinn í Birmingham dregur að sér milljónir manna á hverju ári, og skyldi engan undra.
Básar á jólamarkaðnum
Ein af verslunargötunum og jólalegur útibar
Á aðventunni er líka komið fyrir stóru parísarhjóli í miðbænum sem setur skemmtilegan svip á umhverfið og auðvitað frábært að fara upp í til að fá betra útsýni yfir borgina og jólaljósin. Og hjá parísarhjólinu er svo skautasvell og auðvitað er það umhverfi einnig skreytt með jólaljósum. Undir kvöld þegar tekur að rökkva myndast skemmtileg stemning í bænum og kringum markaðinn. Margir sölubásar á markaðnum selja mat og heita drykki og svo eru auðvitað pöbbar þarna allt um kring. Í ár opnar markaðurinn og svellið þann 12. Nóvember.
Frábært að versla… og borða
Í miðbænum er bæði risastór verslunarmiðstöð og verslunargötur. Það er því vel hægt að rölta á milli búða og skella sér svo í „mollið“. Fyrir búðaglaða konu er það ekki slæmt. Og þessi stóra og glæsilega verslunarmiðstöð fær góða einkunn hjá búðaglöðu konunni. Hún heitir The Bullring og er að utan eins og hálfgert geimskip, reyndar mjög nýtískulegt og flott. Þessi stóra og glæsilega verslunarmiðstöð fer því ekki svo auðveldlega fram hjá manni.
Það er líka gott að borða í Birmingham og er fjöldinn allur af alþjóðlegum veitingastöðum. Við duttum t.d. inn á yndislegan ítalskan stað, Carluccio´s, sem er með ítalska sælkeravöru til sölu fremst á staðnum svona eins og lítil sælkerabúð en svo eru kerti og kósýheit fyrir innan.
Þá eru barir, pöbbar og kaffihús á hverju horni. Nú og svo má ekki gleyma tónleikum en stórir og frægir tónlistarmenn leggja gjarnan leið sína til Birmingham á tónleikaferðalögum sínum. Og ekki sveik Bublé – sem var vissulega hápunktur ferðarinnar.
Manchester og London
Þar sem ekkert beint flug var í boði til Birmingham tókum við þann kostinn að fljúga til Manchester og síðan lest. Þetta var lítið mál og nýttum við tækifærið og flugum heim frá London og náðum okkur í sólarhring þar í leiðinni. Og ég get sagt ykkur það að ég iða í skinninu að komast aftur á aðventunni til Birmingham – því þessi ferð var tær snilld.
kokteillinn@gmail.com