Hér áður fyrr hugsaði maður ekkert sérstaklega út í það að einhvern tímann færi maður á breytingaskeiðið. Og innst inni vildi maður eflaust vera laus við það enda hefur staðalmyndin af konu á breytingaskeiði verið máluð frekar neikvæð.
En auðvitað sleppur engin kona við þetta tímabil. Og þótt einhverjar telji jafnvel að þær hafi sloppið eða muni sleppa þá er það ekki mögulegt – ekki einu sinni pínulítið mögulegt. Því þetta er gangur lífsins og svona virkar lífsklukka okkar
Þýðir ekkert að þráast við
Þótt ýmsir leiðinda kvillar fylgi breytingaskeiðinu þá er samt ýmislegt gott tengt þessum aldri. Ég er t.d. búin að átta mig á því hvað það er í raun frábært tímabil sem fer í hönd.
Lífið er svo sannarlega ekki að verða búið og margt spennandi framundan. Á leiðinni er samt eitt og annað sem þarf að yfirstíga og miklar breytingar bíða allra kvenna sem komnar eru yfir fertugt. Það þýðir ekkert að ætla að þráast við og halda að engar breytingar verði hjá þér því við konur göngum allar í gegnum einhverjar breytingar.
Ekki auðvelt að viðurkenna
Í fyrstu er oft ekkert auðvelt fyrir konur að viðurkenna að „þetta skeið“ breytinga sé hafið. Enda liggur við að konur hvísli svo enginn heyri þetta orð – því þær eru yfirleitt ekkert að auglýsa það eitthvað sérstaklega að þær séu á breytingaskeiðinu. Þrátt fyrir að margar okkar vilji frekar hunsa þetta tímabil en veita því sérstaka athygli þá er það hreint ekki svo einfalt.
Þegar upp er staðið er þetta heldur ekki eins slæmt og sumar halda og er það miklu frekar þessi neikvæða umræða um konur á breytingaskeiði sem lætur þetta líta verr út en það er. Vissulega eiga sumar konur erfitt á þessum tíma en það er alls ekki algilt. Breytingaskeiðið er klárlega tímabil sem markar tímamót í lífi kvenna og því fylgja bæði kostir og gallar eins og öllu öðru í lífinu.
Hræðsla við nýtt ævistig
Á breytingaskeiðinu, og eftir að því lýkur, tekur líkaminn miklum breytingum sem geta auðveldlega ruglað konur í ríminu og gert þær óöruggar. Þá getur andlega hliðin líka verið viðkvæm. Þetta minnir óneitanlega á annað tímabil í lífinu, en segja má að breytingaskeiðið sé spegilmynd kynþroskaskeiðsins þar sem báðum fylgja breytingar sem geta valdið hræðslu við nýtt ævistig.
Að vera meðvituð um einkenni breytingaskeiðsins og að vita hvers megi vænta gerir þetta tímabil auðveldara. Þegar við skiljum þær breytingar sem eiga sér stað verðum við öruggari og gott er að fá fullvissu fyrir því að allar þær tilfinningar sem bærast innra með okkur séu ósköp eðlilegar. Því meira sem við vitum um þetta tímabil því betur erum við undir það búnar að takast á við og höndla breytingarnar.
Stundum þekkir maður ekki sjálfa sig
Engar tvær konur fara eins í gegnum breytingaskeiðið, þótt mæðgur geti á margan hátt verið líkar að þessu leyti. Langflestar konur ganga í gegnum breytingarnar á aldrinum 45 til 52 ára en einstaka kona fer þó á breytingaskeið rétt eftir þrítugt og enn aðrar ekki fyrr en eftir fimmtugt.
Óhætt er að segja að margt komi manni á óvart á þessu tímabili og má segja að stundum þekki maður sjálfa sig ekki alveg. En vitandi að allt líði þetta hjá veitir manni ró og svo er auðvitað alltaf gott að halda í bjartsýnina og gleðina. Það er alveg ótrúlegt hvað það getur skilað manni!
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com