Stundum geta góð húsráð bjargað málunum. Þess vegna er svo gott að kynnast nýjum og nýjum ráðum og það má sífellt bæta fleiri ráðum og trixum í húsráðabankann.
Hér eru fimm snilldar húsráð
Hreinsaðu straujárnið
Þeir sem strauja mikið þekkja það hvernig straujárnið verður gjarnan skítugt á botninum, þ.e. á strauhliðinni.
Til að hreinsa það í burtu er gott að dreifa salti yfir strauborðið og strauja fram og til baka yfir það með heitu járninu.
Enga sóðalega og illa lyktandi ruslafötu
Það vill oft safnast skítur neðst í ruslafötuna hjá okkur sem leiðir til þess að hún lyktar illa. Til varnar því skaltu prófa að setja gömul dagblöð í botninn á fötunni og svo auðvitað skipta um reglulega.
Eða þú getur notað uppáhalds efnið okkar og dreift nokkrum teskeiðum af matarsóda í botninn á fötunni – en hann sýgur bæði í sig alla lykt og það sem lekur á botninn.
Dýrahár úti um allt
Eru katta- og hundahár úti um allt?
Settu á þig gúmmíhanska og bleyttu hann aðeins. Strjúktu síðan yfir hárugu svæðin og strjúktu hárin í burtu – en þau festast við hanskann.
Og þannig losnarðu við fingraför
Það getur verið ergilegt að sjá endalaus fingraför á ryðfríu stáltækjunum og ekki er alltaf auðvelt að ná þeim af. En hér er ráð við því – það virkar vel að setja smá barnaolíu í tauklút eða mjúka tusku og þurrka síðan blettina af.
Ef myglusveppir eru að myndast
Ef bleikir blettir eða myglusveppur er að myndast í sturtunni eða í baðinu geturðu prófað þetta ráð. Blandaðu saman jöfnum hlutföllum af matarsóda og sítrónusafa. Berðu þetta síðan á flísarnar, baðkarið og/eða sturtuhengið og leyfðu því að liggja í 2 tíma. Hreinsaðu síðan í burtu með heitu vatni.