Þegar konur eldast er eðlilegt að brjóstin sígi og lögun þeirra breytist.
Margir telja þetta vera eðlilegan hluta af því að eldast og því sé ekkert hægt að gera til að koma í veg fyrir það.
Vissulega er það rétt að með aldrinum missa brjóstin fyllingu og þau verða ekki jafn þrýstin. En það má svo sannarlega reyna að sporna við þessari þróun.
Auðvitað síga lítil brjóst líka
Oft er talað um að brjóstagjöf valdi því að brjóstin síga. Það er hins vegar ekki rétt því meðgangan sjálf veldur því miklu frekar. Þá er talið að lítil brjóst sígi ekki, en það er ekki rétt því auðvitað síga þau líka þótt það sé ekki eins mikið.
Það þýðir heldur ekkert að gera æfingar fyrir brjóstin sjálf því brjóstin eru ekki vöðvi. Og þótt margir segi að stanslaus notkun brjóstahaldara komi í veg fyrir að brjóstin sígi þá er það bara ekki rétt. Svo það er algjörlega tilgangslaust að sofa í haldaranum.
Nokkur atriði sem geta hjálpað
Hér eru aftur á móti nokkur atriði sem gætu spornað gegn því að þetta gerist of hratt og að brjóstin sígi allt of mikið.
1. Vöðvarnir
Að þjálfa vöðvana í kringum brjóstin. Með réttu æfingunum má hjálpa þessu svæði að halda ástandi sínu lengur og/eða að endurheimta að hluta til fyrra ástand sitt. Æfingarnar geta bætt útlit brjóstanna til muna.
2. Líkamsstaða
Gættu að líkamsstöðu þinni. Ef þú leyfir öxlunum að hanga niður og ert alltaf of hokin veitirðu brjóstunum ekki þann stuðning sem þau þarfnast. Þetta getur leitt til þess að þau sígi enn frekar.
3. Brjóstahaldarinn
Notaðu rétta brjóstahaldarann. Hann þarf að halda vel við og lyfta brjóstunum upp – ágætt er að fá aðstoð afgreiðslufólks í sérhæfðri verslun eða deild við val á haldara. Auk þess er mikilvægt að nota sérstaka íþróttahaldara í líkamsræktinni og við hlaup.
4. Ólífuolía
Notaðu ólífuolíu á brjóstin. Gott er að nudda brjóstin tvisvar til þrisvar í viku með ólífuolíu en hún er talin auka stinnleika húðarinnar. Þá eykur nuddið blóðflæðið og hjálpar til við að bæta teygjanleika húðarinnar.
5. Jógastöður
Ákveðnar jógastöður geta hjálpað sígandi brjóstum. Stöður eins og þríhyrningurinn og slangan eru góðar til þess.