Sólarvörn er samansett úr nokkrum efnum sem eiga að koma í veg fyrir að útfjólubláir geislar sólarinnar komist inn í húðina.
Annars vegar er hér um að ræða UVA geisla og hins vegar UVB geisla. Báðir eru taldir skemma húðina og auka hættuna á húðkrabbameini.
Roði, bruni og húðkrabbamein
UVA geislarnir eru sagðir valda skemmdum á húðinni, ótímabærri öldrun hennar og húðkrabbameini.
UVB geislarnir eru geislarnir sem valda sólbruna og roða í húðinni, sólarskemmdum á húðinni og einnig húðkrabba.
Margir hafa ekki hugmynd um hvað þessir staðlar þýða
En hvað þýðir þá þetta SPF sem stendur á allri sólavörn?
Þetta er skammstöfun sem stendur fyrir „Sun Protection Factor“ og þýðir í raun hvernig tiltekin vörn ver húðina fyrir UVB geislunum. Án sólarvarnar tekur það húðina um 20 mínútur að verða rauð. Sé notuð vörn með SPF 15 eða hærra getur það komið í veg fyrir roðann og þú getur verið mun lengur í sólinni án þess að roðna eða brenna. Flestar sólarvarnir með SPF 15 eða meira eru góðar sem vörn gegn UVB geislunum.
Ekki mikill munur á SPF 15 og SPF 100
Til að fá sem mestu vörnina gegn útfjólubláum geislum er best að kaupa sólarvörn sem hefur „broad spectrum“ því hún ver húðina bæði fyrir UVB og UVA geislum. En það er mikilvægt að hafa í huga að engin sólarvörn getur varið húðina 100 prósent fyrir þessum geislum. Og auk þess segir SPF stuðullinn ekki allt því sólarvörn með mjög háan stuðul veitir ekkert miklu meiri vörn en þær sem eru með 30 eða 50.
Þannig virkar þetta
Sólarvörn með SPF 15 útilokar 93 prósent UVB geislanna.
Sólarvörn með SPF 30 útilokar 97 prósent UVB geislanna.
Og vörn með SPF 50 útilokar 98 prósent og SPF 100 útilokar 99 prósent.
Þannig að í raun er ekki mikill munur á því að nota vörn 30 eða 100.
En ekki ætti heldur að treysta aðeins á sólarvörnina eina því hún ætti aðeins að vera hluti af því sem þú notar til að vernda húðina. Að nota flíkur og hatta er einnig mikilvægt þegar verið er í mikilli sól.