Er erfitt að halda í við vigtina og finnst þér þú aðeins þurfa að gjóa augunum á mat og þú bætir á þig?
Vissulega getur orðið erfiðara að halda þyngdinni í skefjum með hærri aldri þar sem hægir á brennslunni með árunum.
En kannski er líka eitthvað við lífshætti þína sem gerir það að verkum að kílóin læðast aftan að þér og sitja sem fastast.
Hér eru sjö atriði sem gætu verið að auka við þyngdina
1. Að borða megrunarfæði eða það sem kallast „létt“ eitthvað
Vörur sem merktar eru „létt“ eða „diet“ eru yfirleitt fullar af alls kyns óþarfa aukaefnum sem við höfum ekkert við að gera. Auk þess veita þær hvorki fyllingu né metta – og líkaminn kallar því mjög fljótt aftur á mat.
Niðurstaðan er því sú að þú borðar meira og fleiri hitaeiningar en þú hefðir gert með því að fá þér holla hreina máltíð. Rannsóknir benda einmitt til þess að líkaminn brenni 50% meira af hitaeiningum þegar hann fær hreina fæðu til að brenna í stað unnar matvöru.
2. Að drekka of oft áfengi
Margir borða bæði meira og öðruvísi þegar þeir drekka. Áhrifin af víni auka oft lystina og þá leitar fólk einnig í eitthvað óhollara. Auk þess inniheldur vín mikið af hitaeiningum. Það er því sjálfsagt að skoða það hvort víndrykkja geti verið að bæta á þig kílóum.
3. Að borða of mikið af hollustuvarningi
Auðvitað er gott að borða hollt en það þarf líka að hugsa um magnið. Þegar fólk skiptir um lífsstíl og tekur fæðið í gegn þarf líka að skoða skammtastærðir. Þótt fæðan sé hollari og hitaeiningarnar færri er það fljótt að koma þegar skammtarnir eru stórir og of mikið borðað.
4. Að sleppa máltíðum
Fyrir flesta er ekki skynsamlegt að sleppa úr máltíð. Hættan er sú að þú hafir ekki næga orku út daginn og að þú borðir of mikið um kvöldið þegar þú ferða að slaka á. Það skiptir ekki aðeins máli hversu mikið þú borðar yfir daginn heldur einnig hvenær dagsins þú borðar.
Ágæt þumalputta regla er að neyta stærri máltíða þann hluta dagsins sem mest er að gera hjá þér og léttari máltíðir þann tíma sem er rólegri. Og ekki láta meira en fjóra til fimm tíma líða á milli þess sem þú borðar.
5. Að telja hitaeiningarnar
Þótt það skipti vissulega máli hversu margar hitaeiningar þú innbyrðir yfir daginn þá er ekki vænlegt að telja endalaust ofan í sig hitaeiningarnar. Sannað þykir að slík talning geri t.d. konur enn stressaðri yfir þyngdartapi en ella.
Aukið stress getur valdið uppsveiflu á kortisóli, en það hormón er bæði þekkt fyrir að auka lystina sem og auka löngun í feitan og sykraðan mat.
6. Að sniðganga alla fitu
Ekki öll fita er vond. Til er góð fita sem gerir heilmikið fyrir okkur. Að borða réttu fituna er í raun skynsamlegt – en góða fitu má finna í ólífuolíu, kókosolíu, avókadó og hnetum.
Þessi fita er bæði mettandi og góð fyrir meltinguna. Þá er líka ágætt að fá sér örlítið dökkt súkkulaði annað slagið, en það inniheldur einnig fitu.
7. Tilfinningatengt át
Margir hafa vanið sig á að leita í mat og sætindi þegar þeim leiðist eða þegar þeir eru reiðir, niðurdregnir og jafnvel óskaplega glaðir. Matur er gjarnan tengdur tilfinningum og kannast margir við að verðlauna sig eða hugga sig með mat.
Ekki hugsa um mat á þennan hátt því þetta er vítahringur sem erfitt getur verið að komast út úr.