Glútenlaus fæða hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár og hefur því orðið til stór markaður fyrir glútenlausar vörur – sem hreinlega blómstrar.
Margir forðast að borða fæðu sem inniheldur glúten og leitast við að kaupa glútenlaust Engu að síður er talið að ekki nema eitt prósent okkar þurfi á því að halda að forðast glúten. En þetta eina prósent er með glútenóþol og þeir einstaklingar verða veikir ef þeir borða glúten.
Hver er ávinningurinn?
En hver er ávinningurinn fyrir þá sem ekki eru með glútenóþol og forðast það samt? Samkvæmt rannsóknum er hann enginn. Oft er þessi vara dýrari en önnur og svo er það í „tísku“ að borða glútenlausan mat. En næringarlega séð þá er víst enginn munur á því að borða glúten eða glútenlaust segja sérfræðingar við The George Institute for Global Health í Ástralíu – en þeir gerðu rannsókn á þessu.
Fundu lítinn sem engan mun
Eftir að hafa skoðað 3.200 vörur sem tilheyrðu 10 fæðuflokkum fundu sérfræðingarnir lítinn sem engan mun á næringargildi glútenlausu varanna. Þeir skoðuðu m.a. brauð og pasta, og einnig vörur eins og kex og flögur. Segja þeir niðurstöður sýna fram á að glútenlausu vörurnar innihaldi minna af próteini en magn sykurs og sódíum hafi hins vegar verið svipað í báðum vörum hvort sem þær voru glútenlausar eða ekki.
Bæta oft við auka sykri og fitu
Reyndar telja sumir að glútenlaust sé í raun og veru verra fyrir okkur þar sem framleiðendur þeirra vara bæta oft auka sykri og fitu í vörurnar til að bæta bragð og áferð varanna. Auk þess innihalda þessar vörur oft minna af vítamínum og steinefnum.
Sérfræðingar telja það áhyggjuefni að þeim sem telja sig með glútenóþol fari fjölgandi og vilja meina að hér sé um tískubólu að ræða. Segja þeir aðra lífshætti fólks geta valdið uppþembu og þreytu, sem oft eru talin áhrif glútens.
Þá hafi frægir einstaklingar haldið því fram að glútenlaust fæði geri kraftaverk og fólk horfi gjarnan til stjarnanna í þessum málum. Einnig benda þeir á iðnaðinn sjálfan sem veltir miklum fjármunum og auglýsir glútenlaust fæði sem hollari kost. En í raun sé svo ekki og hér sé því um hina fullkomnu markaðssetningu að ræða.