Stundum lendum við í þeim aðstæðum að við þurfum nauðsynlega að slétta úr krumpuðum flíkum… en höfum ekki straujárn við höndina.
Þá geta góð ráð verið dýr.
En auðvitað erum við hér með nokkrar lausnir við því hvað má nota í staðinn til að bjarga málunum.
Sex einfaldar aðferðir til að ná krumpunum úr
Hárblásari
Þú getur náð krumpum úr fötunum þínum á svipstundu með heitu lofti.
Kveiktu á hárblásaranum og stilltu á heitt, og haltu honum svo í 2 til 3 sentímetra fjarlægð frá flíkinni svo hún sviðni ekki.
Ágætt er að strjúka með höndunum yfir flíkina strax á eftir til að ná krumpunum alveg í burtu.
Sléttujárn
Þú getur notað sléttujárnið þitt til að pressa skyrtukraga eða smærri krumpur í blússum.
Notaðu háan hita fyrir bómull og lágan hita fyrir viðkvæm efni eins og silki og slíkt.
Passaðu líka að járnið sé hreint og engin hárefni í því.
Gufan í sturtunni
Notaðu tímann meðan þú ferð í sturtu.
Hengdu krumpuð fötin upp á sturtustöngina eða mjög nálægt sturtunni.
Lokaðu gluggum og hurðum og taktu þér síðan góðan tíma í sturtunni.
Og korteri seinna ættu fötin þín að vera tilbúin og ókrumpuð.
Rúllaðu flíkinni upp eins og rúllutertu
Leggðu flíkina á borð og strjúktu yfir krumpurnar til að slétta úr þeim. Rúllaðu síðan flíkinni upp eins og rúllutertu.
Settu flíkina síðan undir eitthvað þungt, eins og til dæmis rúmdýnu, í 15 til 30 mínútur. Líttu á þetta eins og hálfgerða pressun.
Gufa með tekatli
Ef þú ert stödd/staddur á hóteli þá er oft ketill á herberginu sem getur hjálpað.
Þetta virkar best á smáar krumpur. Þú getur gert þetta þegar þú færð þér te og vatnið sýður í katlinum. Það gerirðu með því að halda stútnum á katlinum svona 30 sentímetrum frá þeim krumpum sem þú vilt losna við. Einfalt!
Klaki í þurrkarann
Ef þú kemst í þurrkara þá getur það líka hjálpað.
Settu krumpuðu flíkina inn í þurrkarann. Hentu nokkrum ísklökum inn með flíkinni og stilltu á háan hita í nokkrar mínútur. Þegar klakinn bráðnar myndar hann gufu sem leiðir til þess að það sléttist úr krumpunum.