Hver kannast ekki við að vera með ónýtan lauk inni í ísskáp, nú eða þá spíraðan hvítlauk?
Og alltaf finnst manni þetta gerast alltof fljótt – því þegar grípa á í síðustu hvítlauksrifin til að nota í uppáhalds réttinn eru þau orðin svo spíruð og bragðvond að þau eyðileggja matinn.
Til að bregðast við þessu er hér einföld lausn sem gerir okkur fært að geyma hvítlauk og lauk í marga mánuði
1. Náðu þér í bréfpoka og stingdu nokkur göt á efri hluta hans með góðu áhaldi sem rífur ekki of stór göt.
Best ef þú átt til þess sérstakt áhald sem gatar. Ágætt getur verið að brjóta pokann saman nokkrum sinnum og gata hann þannig.
2. Settu laukana í pokann, eða pokana, svo þeir séu hálffullir eða laukurinn nái upp að neðstu götum pokans. Lokaðu síðan pokunum með því að brjóta upp á þá og notaðu svo bréfaklemmu til að halda þeim lokuðum.
3. Settu pokana í grænmetisskúffuna en ekki leggja þá hvern ofan á annan eða alveg klessta saman. Loftið þarf að fá að leika um pokana, til þess er leikurinn gerður. Þeir þurfa því sitt pláss.
4. Með þessari aðferð á að vera hægt að geyma flestan lauk og hvítlauk í langan tíma. En auðvitað fer það líka eftir hitastiginu þar sem pokarnir eru geymdir, sem og rakastigi og birtu.
5. Best er að nota grænmetisskúffuna í ísskápnum fyrir laukinn því hún er ekki jafn köld og aðrir hlutar skápsins. Dimmir staðir eru góðir en ekki of kaldir því of mikill kuldi mýkir áferð lauksins og skemmir hann.
Fleiri ráð
Ekki geyma lauk og kartöflur saman.
Ekki geyma lauk í plastpoka.