Hefur þú stundum pælt í því hvað franskar konur virðast einhvern veginn alveg vera „með þetta“?
Þær eru smart, bera sig vel, eru með óaðfinnanlegt hár, passlegar í holdum en borða samt það sem þær langar í. Þær frönsku eru fallegar á sinn hátt og öruggar með sig.
Bera virðingu fyrir sjálfum sér
Þetta eru konur sem elska sjálfar sig og bera virðingu fyrir sér – og það endurspeglast í fasi þeirra og útliti. Sumir myndu kannski kalla þetta hroka og eigingirni en þær frönsku mega eiga það að þær eru flottar.
Er það samt ekki nokkuð rökrétt að kona sem ber virðingu fyrir sjálfri sér hugsi vel um sig?
Og væri ekki gott að hafa ekki stöðugt samviskubit yfir því að setja sjálfa sig í forgang?
En hvað gerir þær frönsku svona flottar?
Hvernig væri að taka frönsku leiðina á þetta – engar afsakanir og ekkert samviskubit.
Svo hvað er það sem þær frönsku gera öðruvísi?
Hér er listi með tíu atriðum sem franskar konur gera
1. Sættu þig við sjálfa þig eins og þú ert.
Þær frönsku gera sér alveg grein fyrir því að engin kona getur verið eins og klippt út úr glanstímariti. Þótt þær séu margar grannar þá er líkamsvöxturinn mismunandi en þær vita líka að hamingjan felst ekki í því að passa í stærð tvö. Það sem skiptir máli er að líða vel í eigin skinni og það endurspeglast í fasi þeirra.
2. Flaggaðu því sem þér líkar best við
Þær frönsku hafa mikið tískuvit en þær kunna líka að klæða sig. En ekki bara það því þær vita hvað klæðir þær og halda sig við það. Þá elta þær ekki allar tískusveiflur heldur nota aukahluti og annað slíkt til að tolla í tískunni.
3. Vertu góð við sjálfa þig
Að líða vel í eigin skinni er ávísun á að líta vel út. Svo láttu það eftir þér að dekra aðeins við þig. Að taka sér tíma fyrir notalegt bað, fara í nudd eða andlitsbað er eitthvað sem þær frönsku stunda. Og þær gefa sér tíma í það alveg sama hversu uppteknar þær eru.
4. Njóttu þess að borða
Góður matur er grundvallaratriði í franskri menningu og þær frönsku kunna að njóta. Ekki neita sjálfri þér stöðugt um allt sem þig langar í. Láttu það eftir þér að fá þér eftirrétti, sætindi, osta og annað í þeim dúr annað slagið. Franskar konur borða ekki sætan eftirrétt, croissant og annað slíkt á hverjum degi – og þegar þær gera það fá þær sér jafnvel minna af öðru í staðinn. Þetta snýst auðvitað alltaf um magn.
5. Berðu virðingu fyrir líkama þínum
Ekki gúffa í þig – reyndu að njóta hvers bita og bragðsins af honum. Ef þú elskar súkkulaði láttu það þá eftir þér en slepptu þá einhverju öðru hitaeiningaríku í staðinn. Að neita sér um allt sem manni finnst gott gerir lífið ekkert skemmtilegt og það vita þær frönsku.
6. Að líða vel og líta vel út
Franskar konur fara ekki út úr húsi á náttbuxunum. Þótt þær hafi lítinn tíma þá taka þær sig til og greiða sér. Þær láta það ganga fyrir og sleppa því frekar að búa um rúmið eða ganga frá eftir morgunmatinn – enda hver sér það svo sem!
Að líða vel með sjálfan sig og vita að maður lítur vel út endurspeglast bæði í útliti og útgeislun.
7. Vertu þú sjálf
Ef þú vilt vera ögrandi vertu það þá! Ekki hugsa hvað öðrum finnst. Ef eitthvað endurspeglar þinn karakter ekki hika við að nota það. Vertu svellköld í því að nota hatta, áberandi skó, stóra hringi eða hálsfestar, stóran klút sem stingur í stúf eða hvað eina sem ert ÞÚ og aðgreinir þig frá öðrum.
8. Vertu þakklát fyrir litlu hlutina
Það er margt sem gleður okkur en við tökum sem sjálfsögðum hlut. Góð lykt, nýtt ilmvatn, súkkulaðibiti, fullkominn ostur og jafnvel lykt af góðu víni. Franskar konur kunna að njóta þessara litlu hluta.
9. Ekki láta aldurinn stoppa þig
Aldur er engin afsökun fyrir því að hætta að hugsa um sjálfa sig og líta vel út. Það er fátt meira aðlaðandi en fullorðin kona sem veit hver hún er, hvernig hún á að klæða sig og sem hugsar vel um sig. Franskar skvísur eru á öllum aldri.
10. Njóttu lífsins
Finndu þína ástríðu og einbeittu þér að því sem þú elskar. Lærðu að segja nei við því sem þig langar ekki að gera og þú veist að er tóm tímasóun.
Njóttu þess að vera þú og njóttu þess að vera til!