Því hefur lengi verið haldið fram að súkkulaði sé gott fyrir okkur og styðja fjölmargar rannsóknir við að gott sé að gæða sér á örlitlu súkkulaði daglega.
Sérfræðingar við háskólann í Aberdeen hafa nú komist að því að súkkulaði geti dregið úr líkum á hjartasjúkdómum og heilablóðfalli.
Borðuðu allt að 100 grömm af súkkulaði á dag
Í rannsókninni sem framkvæmd var skoðuðu hjartasérfræðingar og fylgdust með því hvernig fólk snarlar – en rannsóknin tók yfir 12 ára tímabil. Komust þeir að þeirri niðurstöðu að einstaklingar sem borðuðu allt að 100 grömm af súkkulaði á dag voru í minni hættu á að fá heilablóðfall.
Rannsóknin sýndi að með því að borða súkkulaði reglulega dró úr líkum á heilablóðfalli um 23 prósent og auk þess voru ellefu prósent minni líkur á að þróa með sér hjartasjúkdóma – sé miðað við þá sem ekkert súkkulaði borðuðu.
Ekki bara dökka súkkulaðið
En áhugaverðast við þessar niðurstöður er samt það að stærsti hluti þáttakenda var ekki að borða dökkt súkkulaði heldur mjólkursúkkulaði. En hingað til hefur frekar verið talið að fólk ætti að gæða sér á dökku súkkulaði vilji það yfir höfuð neyta súkkulaðis.
Þeir sem standa að rannsókninni hvetja fólk þó ekki til þess að gúffa í sig súkkulaði allan daginn heldur neyta þess í hófi. Benda sérfræðingarnir á að miklar hitaeingar séu í súkkulaði og þyngd og offita hafi slæm áhrif á hjartaheilsu eins og flestir vita.
En okkur finnst það ljómandi góðar fréttir að mjólkursúkkulaði hafi góð áhrif á hjartaheilsu.