Þeir eru ófáir sem drekka sítrónuvatn á hverjum einasta morgni, enda er það talið gera líkamanum gott. Meðal annars er það talið styrkja ónæmiskerfið og hjálpa meltingunni.
En sítrónuvatnið er þó ekki eingöngu hollt og gott því það er einn stór galli á því sem oft er líklega ekki hugsað út í.
Ókosturinn við sítrónuvatnið
Staðreyndin er sú að heitt vatn með sítrónusafa fer afar illa með tennurnar. Sítrónuvatnið hefur augljóslega mjög hátt sýrustig sem fer létt með að skemma glerunginn á tönnunum.
Með tímanum geta tennurnar orðið gular og uppétnar þar sem skín í tannbeinið. Burtséð frá útliti og heilbrigði tannanna þá geta þær líka orðið einstaklega viðkvæmar fyrir hita og kulda. Þá verða heitu drykkirnir óþægilegir og sömuleiðis allt það sem er ískalt.
Heitt miklu verra en kalt
Að drekka sítrónuvatnið volgt eða heitt er mun verra fyrir tennurnar en að drekka það kalt því hitinn magnar sýruna upp. Þótt þú teljir, og jafnvel vitir, að það sé hollara og betra fyrir líkamann að drekka vatnið volgt þá er það svo miklu betra fyrir tennurnar að drekka það kalt.
Ef þú heldur að það sé gott að bursta tennurnar strax eftir að vatnið er drukkið þá eru það mikil mistök. Vegna þess að með því gerir þú vandamálið enn verra. Þar sem sýran mýkir glerunginn upp þá gerir tannburstunin ekkert annað en að flýta enn frekar fyrir þeim skaða sem tennurnar verða fyrir. Það er því skynsamlegt að sleppa því að bursta strax á eftir.
En þannig má draga úr skaðanum og bæta ástandið
Ekki bursta tennurnar fyrr en í fyrsta lagi klukkutíma eftir að þú drekkur sítrónuvatnið og notaðu mjúkan bursta og mjúkar hreyfingar við burstunina.
Þá má drekka sítrónuvatnið í gegnum rör og hafa það vel útþynnt, þ.e. að hafa meira vatn en þú ert vanur/vön.
Síðan er skynsamlegt að drekka vatnið kalt en ekki heitt.
Ef þér finnst óþægilegt að geta ekki burstað tennurnar strax á eftir geturðu byrjað á því að skola munninn mjög vel með hreinu vatni.
Það er því ekki ástæða til þess að hætta að drekka sítrónuvatnið á morgnana. En það borgar sig að vera vakandi fyrir því hvað það gerir tönnunum og gera þessar varúðarráðstafanir.