Stundum getur lundin og lífið verið erfiðara en maður vildi og ófáar konur sem þekkja það hvað andlega hliðin getur verið viðkvæm á vissum tímabilum lífsins.
Ekki er til dæmis óalgengt að konur á breytingaskeiði þurfi að glíma við skapsveiflur, pirring, grátgirni og jafnvel þunglyndi.
Og hver er eiginlega ástæðan fyrir því? Jú, það eru blessaðir hormónarnir sem eiga sök á þessum skapsveiflum.
Ef þú finnur fyrir miklum skapsveiflum, ert ofur viðkvæm og stundum ansi viðskotaill þá er líklegt að þú sért á breytingaskeiði.
Náttúrulegt þunglyndislyf
Einn af eiginleikum estrógen hormónanna er til dæmis sá að þeir virka eins og náttúrulegt þunglyndislyf. Þegar magn þeirra í líkamanum minnkar, eins og gerist á breytingaskeiði, fær heilinn ekki þau skilaboð eða merki vellíðunar sem hann þarfnast til að hafa stjórn á tilfinningunum. Afleiðingarnar eru þær að konur geta orðið pirraðar, kvíðnar, áhyggjufullar og jafnvel þunglyndar.
Þessar döpru og leiðu tilfinningar, sem og viðkvæmnin, er allt ósköp eðlilegt en alvarlegt þunglyndi er það hins vegar ekki.
Hundleiðar á sjálfum sér
Skapsveiflur og pirringur á breytingaskeiðinu geta verið langvarandi og varað lengur en nokkra daga í mánuði eins og fyrirtíðaspennan. Sumar konur eru alltaf pirraðar og fúlar og hafa allt á hornum sér. Þær ráða bara ekki við sig og skapið hleypur með þær í gönur, eða réttara sagt þá gera hormónarnir það.
Á svipstundu stökkva þær upp á nef sér (og það kannski ansi oft) og hreyta ónotum í aðra. Þar sem þetta er alveg ný hegðun fyrir margar konur þá verða þær leiðar og miður sín þegar þær átta sig á því hversu ósanngjarnar þær geta verið.
Það er því kannski ekki skrýtið að heyra konur segja að þær séu orðnar hundleiðar á sjálfum sér því þær séu eins og gömul rispuð plata, sítuðandi og hundpirraðar yfir sömu hlutunum.
Gott að gráta
Pirringur og geðillska er samt ekki það eina sem getur gert út af við konur á þessu tímabili því á stundum geta þær verið ósköp viðkvæmar og lítið þarf til að græta þær. Oft þarf ekki meira en eina litla sæta auglýsingu í sjónvarpinu til að tárin fari að streyma. Eða smámunir eins og bilaður rennilás eða brotin nögl – og tárin renna.
Það er alveg í fínu lagi að gráta og í sjálfu sér gerir það konum gott þegar tilfinningarnar og hormónahoppið eru við það að bera þær ofurliði. Grátur losar um tilfinningalega spennu í líkamanum svo þær verða rólegri á eftir. Við grátinn losnar endorfín í heilanum, líkt og gerist við hreyfingu, en endorfínið eykur vellíðan.
Allt eru þetta ósköp eðlilegar tilfinningar og skapsveiflur – og hluti af því sem fylgir breytingaskeiði. En það er ekki þar með sagt að það sé alltaf auðvelt að lifa með því.