Allt of margir eru vanir og of vel þjálfaðir í því að hugsa vel um aðra en láta sjálfa sig alveg sitja á hakanum.
En hvernig væri að taka góðan tíma fyrir sjálfa/n sig núna?
Þótt þú takir þér tíma fyrir þig sjálfa/n þýðir það alls ekki að þú sért sjálfselsk/ur – því með þessu ertu líka betur undir það búin/n að hugsa vel um aðra
Að gera eitthvað fyrir sjálfan sig
Gerðu eitthvað fyrir sjálfa/n þig. Skelltu þér í nudd, fótsnyrtingu, langa göngu, flatmagaðu í sófanum eða hvað annað sem þig langar virkilega að gera og veitir þér vellíðan. Beindu allri athygli þinni og ást að sjálfri/sjálfum þér og sjáðu hvort þér líkar ekki útkoman.
Hvað langar þig virkilega að gera?
Náðu aftur sambandi við ástríður þínar. Þegar við eldumst verða verkefnin sem við þurfum að gera ansi fyrirferðarmikil á kostnað þess sem okkur langar virkilega að gera. Í öllu amstrinu gleymum við því hvað það er sem okkur langar af því við erum alltaf að rembast við að klára það sem við þurfum að gera.
Finndu það sem veitir þér sanna gleði
Grafðu djúpt og finndu aftur það sem þú elskar að gera og gefðu þér tíma til þess. Settu það á dagatalið og taktu frá góðan tíma í það. Það er sálinni afar mikilvægt að við gerum það sem veitir okkur ánægju og gleði – og með því verður allt lífið svo miklu skemmtilegra.
Hugsaðu líka um líkamann
Að næra líkamann og hugsa vel um hann hefur ekki aðeins áhrif á líkamlega heilsu heldur einnig andlega. Þetta fer hönd í hönd. Yfir veturinn kjósum við helst heitan eldaðan góðan mat til að halda á okkur hita og ylja okkur við. Og kannski lætur maður meira eftir sér á þessum tíma. Sumir bæta á sig yfir veturinn og því er tilvalið að leitast við að borða aðeins léttara yfir sumartímann. Grænmeti og korn eru góð leið til þess. Líkaminn þakkar þér fyrir það og með því gleðst sálin.
Finndu frelsið
Ótrúlegt en satt þá getur hreingerning og tiltekt á heimilinu gert heilmikið fyrir sálina. Allt of mikið af dóti og drasli getur dregið orku úr fólki.
Er eitthvað dót sem þér finnst erfitt að láta frá þér?
Taktu til í skápunum og skúffunum og reyndu að losa þig við það sem þú hefur engin not fyrir. Þú átt klárlega eftir að finna fyrir létti og ákveðnu frelsi við þetta og það er svo gott fyrir sálina.
Elskaðu sjálfa/n þig
Þegar þú hefur tekið þér tíma í að sinna sjálfri/sjálfum þér gefðu þér þá stund til að meta sjálfa/n þig, hver þú virkilega ert og allt það sem þú gerir. Allt of oft einblínum við á galla okkar í stað kostanna. Allir hafa sína kosti en þeir eru gjarnan drepnir niður með neikvæðum hugsunum.
Þú þarft að finna styrkleika þína, hrósa sjálfri/sjálfum þér og umvefja þitt eigið ágæti. Með því að kunna virkilega að meta sjálfa/n sig og sjá sína innri fegurð ferðu að elska sjálfa/n þig og skína sem aldrei fyrr!