Þunglyndi er afar erfiður sjúkdómur sem þjakar marga. Einkenni þunglyndis geta verið ólík milli kynjanna og þótt sama aðferð sé notuð til að greina þunglyndi hjá körlum og konum þá er upplifunin og þau einkenni sem sjúklingarnir helst kvarta yfir ekki þau sömu.
Hér eru þau atriði sem karlar ræða helst um við lækni þegar greining á sér stað
Þreyta
Mikil þreyta er eitt helsta umkvörtunarefni karla – og er mun algengara að þeir kvarti yfir þreytu við lækni heldur en konur.
Svefn
Svefnvandamál eins og að sofa of mikið, að geta ekki sofið eða vakna eldsnemma á morgnana og liggja andvaka eru algeng einkenni þunglyndis. Að sofa of mikið eða of lítið er eitt það helsta sem karlar ræða um við lækni sinn þegar þunglyndi er greint.
Maga- og bakverkir
Hægðatregða og niðurgangur geta fylgt þunglyndi, og það sama má segja um höfuðverk og bakverk. Karlmenn átta sig þó sjaldnast á því að stöðugir verkir og meltingartruflanir geta verið einkenni þunglyndis.
Pirringur
Í stað þess að virka niðurdregnir út á við eru karlmenn sem þjást af þunglyndi oft mjög pirraðir. Í samtölum sínum við lækna segja karlar að stöðugar neikvæðar hugsanir þeirra valdi þessum pirringi.
Reiði og illska
Hjá sumum karlmönnum sést þunglyndið greinilega með reiði, illsku, fjandskap og árásargirni. Ástæðan gæti verið sú að þegar menn átta sig á að eitthvað er að leitast þeir við að bæta það upp með því að sýna að þeir séu enn sterkir og hæfir einstaklingar.
Einbeiting
Skortur á einbeitingu er eitt einkenni þunglyndis. Þegar neikvæðar hugsanir leita stöðugt á hugann er afar erfitt að einbeita sér. Það hægist á öllu ferlinu og hugsunin verður óskýr.
Álag og stress
Karlar eru líklegri en konur til að nefna stress í samtali við lækninn sinn. Ekki að þeir sé miklu stressaðri en konur heldur er svo auðvelt að kenna stressinu um og auk þess er strssið líka viðurkennt í samfélaginu sem neikvæður áhrifavaldur.
Álag og stress getur bæði leitt til þunglyndis sem og verið eitt af einkennum þess.
Kvíði
Karlar eru ekkert líklegri en konur til að upplifa kvíða en það virðist hins vegar vera mun auðveldara fyrir þá að tala við lækninn sinn um kvíða en depurð. Þá tala þeir um kvíða við að missa vinnuna eða standa sig ekki í vinnunni, kvíða tengdan fjölskyldunni og fjármálum heimilisins.
Kynlíf
Áhugaleysi, engin löngun í kynlíf og risvandamál geta verið einkenni þunglyndis. Þetta er eitt af því sem menn nefna við lækninn sinn. Risvandamál geta síðan gert þunglyndið enn verra hjá körlum.
Ákvarðanatökufælni
Að taka ákvarðanir getur reynst þrautin þyngri þegar þunglyndi hefur tekið völdin. Einföld verk eins og að borga reikninga í heimabankanum geta reynst erfið þótt peningar séu til fyrir reikningunum. Það er þetta með að taka ákvarðanir og gera hlutina – en þunglyndi hægir á öllu slíku ferli.