Góð golfsveifla er að mörgu leyti háð því að grundvallaratriði hennar séu í lagi. Það er mikilvægt að kanna ákveðin undirstöðuatriði reglulega til þess að hámarka árangur hverju sinni og tryggja að golfsveiflan fari ekki út af sporinu.
Gripið mikilvægt
Einn mikilvægasti þáttur golfsveiflunnar er gripið, eina tenging líkamans við golfkylfuna. Það skiptir miklu máli að passa upp á að það ríki stöðugleiki í gripinu, það er til dæmis ekki árangursríkt ef gripið er breytilegt á milli hringja.
Kynnið ykkur rétta tækni og verið dugleg að taka utan um golfkylfu við þau tækifæri sem gefast, nýtið tímann fyrir framan sjónvarpið uppi í sófa og æfið rétt grip. Það mun skila sér úti á golfvellinum.
Einnig hjálpar mikið að fylgjast vel með miðinu og boltastöðunni. Ef þú miðar ekki á skotmarkið er ólíklegt að þú sláir þangað. Til þess að athuga rétt mið er gott að leggja niður tvær golfkylfur á jörðina á æfingasvæðinu, eina kylfu við golfkúluna í stefnu á skotmarkið og aðra við fæturna samsíða skotmarkinu. Með þessum hætti er auðveldara að fá tilfinningu fyrir réttu miði þegar komið er út á völlinn.
Taktu tíma í að skoða boltastöðuna
Boltastaðan getur haft þó nokkur áhrif á feril sveiflunnar og það er því ráðlagt að vera meðvitaður um rétta stöðu. Ef boltinn er til dæmis of framarlega í stöðunni þá er líklegra að þú munir sveifla á út-inn ferli sem veldur oftast því að þú fáir meiri sveigju á boltann frá vinstri til hægri. Taktu góðan tíma í að skoða boltastöðuna með mismunandi kylfum og þú eykur líkurnar á betri höggum.
Það getur oft verið auðvelt að finna atriði í golfsveiflunni til að lagfæra en mörg vandamál stafa af því að einföldu atriðin hafa beðið hnekki. Það er gott ráð að fylgjast vel með grundvallaratriðunum, það getur komið á óvart hversu þýðingarmikil þau reynast.
Gangi ykkur vel.
Í myndbandinu hér að neðan er farið ágætlega í gegnum tæknina í gripinu og það sýnir rétta líkams- og boltastöðu.