Bólgur í líkamanum og uppþemba angrar marga og getur verið hvimleið. Það sem við látum ofan í okkur getur átt stóran þátt í þessum bólgum.
En þegar fólk eldist geta líka hormónar og sveiflur í hormónabúskapnum haft þessi áhrif.
Ef þú vilt hins vegar minnka líkurnar á því að þjást af uppþembu er ýmislegt sem hægt er að gera, nú eða ekki gera, til að koma í veg fyrir þetta hvimleiða vandamál.
Hér er listi yfir eitt og annað sem vert er að taka til athugunar
Drekktu nóg af vatni
Mikilvægt er að svipta ekki líkamann þessu mikilvæga efni. Láttu vatnið vera stærsta hluta þess vökva sem þú innbyrðir daglega. Misjafnt er hvað hver og einn þarf að drekka – þyngra fólk þarf t.d. að drekka meira.
Forðastu sykurlausa gosdrykki með sætuefni
Gervisykurinn getur haft slæm áhrif á líkamann og örvað bólgur.
Reyndu að sneiða hjá mikið unnum vörum
Unnar matvörur geta leitt til þess að bólgur myndist í líkamanum og er skynsamlegt að sneiða hjá þeim eða að minnsta kosti að minnka neyslu þeirra eins og mögulegt er.
Borðaðu meira grænt
Dökkgrænt grænmeti eins og spínat, grænkál og brokkolí eru stútfull af efnum sem vinna gegn bólgum í líkamanum.
Reyndu að minnka sykurneyslu
Sykur er talinn hafa mikil bólguáhrif á líkamann og ef þú þjáist af bólgum og uppþembu ættirðu að skoða sykurneysluna.
Borðaðu gerjuð matvæli
Gerjuð matvæli eru t.d. jógúrt, ab-mjólk, LGG og súrkál.
Gættu þess að fá meira af Omega-3 fitusýrum heldur en Omega 6-fitusýrum
Þær fyrrnefndu vinna gegn bólgum og uppþembu. Omega-3 fitusýrur fáum við m.a. úr laxi, sardínum, valhnetum og sem fæðubótarefni í töfluformi.
Skoðaðu hvaða olíur þú notar við matseldina
Þú gætir verið að nota rangar olíur. Ólífuolía og kókosolía eru t.d. mjög góðir kostir við bólgum í líkamanum og uppþembu.
Gættu þess að hreyfa þig nægilega
Ef líkaminn fær ekki næga hreyfingu getur það leitt til þess að bólgur myndist. Öll hreyfing sem kemur hjartanu til að pumpa er góð – og röskleg ganga gerir t.d. alltaf sitt gagn.