Oft erum við að geyma eitthvað fyrir sérstakt tilefni eða af því að okkur finnst eitthvað svo fínt og dýrt að við viljum bara nota það af sérstöku tilefni.
En af hverju gerum við þetta?
Er ekki bara miklu skemmtilegra að nota það sem maður á meðan maður getur virkilega notið þess.
Notum hlutina, njótum og lifum lífinu lifandi
Þegar ég var yngri, miklu yngri, var ég t.d. vön því þegar ég var að borða að geyma það besta þar til síðast. Oftar en ekki lenti ég svo í því að ég var orðin of södd til að njóta þess besta þegar að því kom. Ég er auðvitað löngu hætt þessu og borða núna það besta fyrst, eða alla vega mjög fljótt, svo ég geti notið þess fullkomlega sem mér finnst best og svo ég fari ekki á mis við það.
Það er ýmislegt sem við geymum eða erum að bíða með. Við yngjumst ekki og lífið er allt of stutt til þess að njóta ekki þess sem við höfum. Og svo er líka eitt og annað sem við ættum að átta okkur betur á með auknum aldri og visku.
Hér eru tíu atriði sem við ættum að vera búin að læra fyrir fimmtugt
1. Notaðu mávastellið eða hvaða fína matarstell sem þú átt
Til hvers að eiga þetta uppi í skáp ef aðeins á að nota það á jólum og páskum. Búðu þér til tilefni til þess að draga stellið fram. Litlir sigrar í lífinu og bara það að gera sér dagamun kalla á fína matarstellið.
2. Og það sama á við um spariglösin
Hvað er gaman við það að eiga glös sem aðeins eru dregin fram einu sinni til tvisvar á ári. Skelltu glösunum á borðið þegar þig langar til þess að drekka úr þeim.
Kannski fékkstu þau í arf eftir ömmu þína – og þá er líka alveg tilvalið að minnast hennar þegar drukkið er úr þeim. Og er ekki skemmtilegra að minnast ömmu oftar en einu sinni á ári?
3. Kveiktu á kertunum sem þú átt
Ekki geyma kerti endalaust þótt þér finnist þau voða fín og flott og njóti sín sem skreyting. Þau njóta sín enn betur ef þú kveikir á þeim og leyfir þeim að brenna. Auk þess eru kerti sem fá að safna ryki heldur ekkert aðlaðandi.
Eins og með allt annað í lífinu eiga kerti sinn líftíma og þau geymast ekkert endalaust frekar en annað.
4. Ekki geyma fötin sem þú kaupir
Ekki geyma flottustu og bestu fötin þín inni í skáp og bíða eftir rétta tækifærinu til að nota þau.
Hvenær kemur það tækifæri eiginlega?
Þegar þú loksins ætlar að fara að nota flíkina er hún kannski orðin svo úrelt að þig langar ekkert að nota hana lengur. Klæddu þig upp og njóttu þess að nota það sem þú eyðir peningunum í í stað þess að horfa á það inni í skáp.
5. Rétta augnablikið fyrir fína vínið?
Áttu sérstaka vínflösku sem þú ert að geyma fyrir rétta augnablikið?
Hvar dregurðu mörkin – og hvenær kemur þetta rétta augnablik?
Lífið er hverfult og enginn veit sína ævina fyrr en öll er. Er ekki nægt tilefni að vera lifandi, spriklandi og glaður?
Taktu tappann úr þessari flösku sem fyrst.
6. Stjórnar fortíð þín framtíðinni?
Sæstu við fortíðina. Þótt þú hafir kannski ekki átt hamingjusama æsku er ekki þar með sagt að þú þurfir að fara í gegnum allt lífið óhamingjusöm-/samur. Leitastu við að minnast góðu stundanna og reyndu að fyrirgefa.
Ekki láta fortíðina stjórna framtíðinni. Slepptu takinu á reiði og biturleika.
7. Misstu þig!
Upplifðu eitthvað minnisstætt og láttu það eftir þér að missa þig yfir einhverju. Hvort sem það er sólsetrið á síðsumarkvöldi, himinblátt hafið á framandi slóðum eða fegurðin af fjallatoppi. Svo má líka alveg missa sig aftur og aftur og …
8. Vertu ein/n
Það er ekki seinna vænna að læra að meta það að vera einn. Að geta notið eigin félagsskapar er góður eiginleiki.
Ekki láta það standa í veginum að finnast þú alltaf þurfa að hafa einhvern með þér í allt það sem þig langar að gera. Ef þú hefur ekki þegar farið eða gert eitthvað ein/n þá er aldeilis kominn tími til.
9. Mikilvægi góðs vinar
Að eiga að minnsta kosti einn besta vin/vinkonu sem er alltaf til staðar fyrir þig er dýrmætt. Það er ákaflega gott að eiga góðan vin sem þú getur deilt öllu með – sumir giftast reyndar besta vini sínum og er hann því alltaf til staðar.
En besti vinurinn þarf samt ekki endilega að búa nálægt þér og þið þurfið ekkert endilega að vera stöðugt að hittast. Málið er að viðkomandi sé þarna fyrir þig og þú fyrir hann.
10. Sátt við sjálfa/n sig!
Vertu sátt/ur við sjálfan þig – og ef þú ert það ekki nú þegar þá er svo sannarlega kominn tími til þess.
Mundu að það er aðeins ein/n þú og ekkert annað eintak er til í öllum heiminum – og það gerir þig alveg einstaka/n.
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com