Hér áður fyrr var allt tekið í gegn og þrifið hátt og lágt fyrir jólin. En með árunum hefur þetta nú aðeins breyst enda vilja flestir njóta aðventunnar í huggulegheitum án þess að vera þreyttir og sveittir að taka heimilið í gegn. Nú og svo sér heldur enginn skítinn og draslið í öllu myrkrinu í desember.
Þess vegna er svo miklu skynsamlegra að gera vorhreingerningu frekar en jólahreingerningu.
Hvað á að geyma og hverju á að henda?
Þegar allt er tekið í gegn þarf líka að fara í gegnum skápa og ákveða hvað á að geyma, hvað má gefa og hverju á að henda. Þetta getur stundum reynst erfitt því margir tengjast dauðum hlutum tilfinningaböndum. Afsakanir eins og „þetta er enn í svo góðu ástandi“ og „ég gæti kannski notað þetta einn daginn“ eða „það eru svo góðar minningar tengdar þessu“, eru þá óspart notaðar. Ef þú hins vegar vilt gera þetta almennilega þýðir ekki að hugsa svona.
Kostir þess að losa sig við dót og drasl eru ótvíræðir!
Tíu góð ráð við vortiltektina
1. Þú eyðir tíma í óþarfa
Samkvæmt rannsóknum eyðir meðalmaneskjan 55 mínútum á dag í að leita að hlutum og dóti.
2. Líkurnar á því að þú munir nota þetta allt eru sáralitlar
Talið er að við notum aldrei 80 prósent af því sem við eigum – sem þýðir að við notuð aðeins 20 prósent. Hugsið ykkur!
3. Þú hefur ekki notað hlutinn í eitt ár
Það er ágætt að miða við eitthvað slíkt í þessu – ef þú hefur ekki notað eitthvað í heilt ár þá er ráð að losa sig við það.
4. Það einfaldar lífið að eiga minna dót
Sannað þykir að með því að losa sig við óþarfa dót getum við minnkað heimilisstörfin um heil 40 prósent. Vilja ekki flestir eiga meiri frítíma?
5. Þú getur náð þér í aukapening
Þótt þú notir ekki eitthvað er ekki þar með sagt að aðrir vilji ekki nota það. Auglýstu dótið til sölu eða farðu með það í Kolaportið og aðra markaði.
6. Dótið (eða vörurnar) er jafnvel ónýtt og útrunnið
Snyrtivörur og annað slíkt á sínn líftíma. Þegar þú byrjar að taka til og fara í gegnum þetta áttarðu þig á því að það er fullt af því sem þú geymir sem er orðið ónýtt.
7. Það er enginn staður til að geyma það
Ef það er eitthvað sem segir þér að þú eigir að losa þig við hlutinn er það þegar þú finnur engan stað til að geyma hann á.
8. Taktu til í frystinum
Margir geyma endalaust af mat í frystinum. Taktu frystinn í gegn og losaðu þig við það sem er orðið mjög gamalt og þig grunar að aldrei verði notað. Hér gildir að vera svolítið harður í því að henda.
9. Hluturinn virkar ekki
Ef eitthvað er búið að vera bilað í þó nokkurn tíma hverjar heldurðu þá að líkurnar séu á því að þú látir gera við það? Er ekki bara best að losa sig við það strax?
10. Láttu gott af þér leiða um leið og þú tekur til
Taktu vandaða, nytsama og góða hluti og gefðu til góðs málefnis. Þeir gætu komið að mjög góðum notum annars staðar.