Það er fátt betra en góður lax enda er þessi bleika dásemd ansi oft á borðum hjá mér.
Þessi uppskrift er ólík mörgum öðrum sem ég hef gert en ferskt rauðkál skipar hér stóran sess.
Alltaf jafn gaman að prófa eitthvað nýtt og gleðja bragðlaukana.
Hér er uppskrift að hollum og góðum laxi með rauðkáli, kartöflum, piparrót og sinnepi.
Það sem þarf
800 gr laxaflak
15-20 litlar rauðar kartöflur
3 bollar rauðkál (eða ca ½ haus)
3 msk heilkorna sinnep (má líka nota Dijon)
3 msk piparrót
sítrónubörkur
Aðferð:
Skerið kartöflurnar niður til helminga.
Skerið rauðkálið niður í mjóar ræmur.
Setjið þetta saman í eldfast fat.
Dreifið vel af ólífuolíu yfir.
Saltið með sjávarsalti og piprið.
Blandið þessu vel saman í fatinu.
Setjið síðan inn í 210 gráðu heitan ofn í 25 mínútúr.
Á meðan grænmetið er í ofninum undirbúið þá laxinn.
Rífið piparrótina niður og takið 3 msk. og setjið í skál.
Blandið 3 msk af sinnepinu saman við.
Rífið börk utan af einni sítrónu og hrærið vel saman við.
Takið grænmetið út úr ofninum eftir 25 mínútur.
Rýmið aðeins til í fatinu fyrir laxinn með því að hræra upp í þessu.
Leggið laxinn í mitt fatið, skera má flakið í 2 bita ef vill.
Þekjið fiskinn með piparrótarblöndunni.
Setjið örlítið af pipar yfir að lokum.
Setjið aftur inn í heitan ofninn í 15 mínútur.
Takið laxinn úr ofninum og kreistið sítrónu yfir ef vill.
Njótið!
jona@kokteill.is