Hvernig væri tilveran án tónlistar?
Tónlist er stór hluti af menningu okkar og hefur verið með manninum óralengi. Talið er að tónlist hafi haft mikil áhrif á þróun mannkyns og vilja sumir jafnvel halda því fram að án tónlistarinnar hefðum við ekki orðið mennsk.
Tónlist fyrirfinnst í öllum samfélögum heimsins
Þeir sem rannsakað hafa tilurð tónlistar eru ekki sammála um uppruna hennar. Margir vilja meina að tónlistin eigi rætur sínar að rekja til fuglasöngs á meðan aðrir andmæla því og segja hana alfarið vera mannlegt fyrirbæri.
Deilt er um hvort tónlistin sé aukaafurð þróunarinnar og skipti manninn litlu sem engu máli eða hvort hún sé þungjamiðja hennar og skipti því sköpum í þróun mannsheilans.
Í augum margra er tónlist ekkert annað en dægradvöl, eitthvað sem er ánægjulegt en ekki nauðsynlegt. Svo eru það hinir sem sjá heiminn og mannkynið ekki fyrir sér án tónlistar. Tónlistargáfa virðist hafa þróast með manninum á líkan hátt og önnur líffræðileg einkenni sem segir okkur að tónlist er ekki eingöngu menningarlegt fyrirbæri. Hún fyrirfinnst í öllum samfélögum heimsins og er því sammannlegt fyrirbæri.
Sú staðreynd að meirihluti mannkyns geti hlustað á tónlist, dansað eftir henni og myndað sér sterkar skoðanir á henni, sýnir okkur að við erum öll tónelsk og skiljum tónlist.
Gætum hvorki dansað né sungið
Hvernig við skynjum tónlist fer eftir því hvernig við heyrum hana. Talað er um afstæða tónheyrn og algjöra tónheyrn. Tónheyrn má síðan tengja við tónlistarsmekk og er því smekkur hvers og eins ekki einungis háður duttlungum hans heldur því hvað honum finnst hljóma fallega og hvað hann skilgreinir sem hávaða.
Þeir sem hafa algjöra tónheyrn geta sungið þann tón sem beðið er um, þar sem þeir þekkja tónana sjálfa. Eins þekkja þessir einstaklingar tónhæð án nokkurrar fyrirhafnar. Að hafa algjöra tónheyrn er þó fremur sjaldgæfur eiginleiki. Afstæð tónheyrn er mun algengari og virðist hún vera meðfædd. Hún byggist á því að þekkja tónbilin en sú aðferð er einmitt þjálfuð hjá tónlistarnemendum.
Þrátt fyrir að tónlistarsmekkur okkar sé breytilegur þá geta líklega flestir verið sammála um að án tónlistar væri heimurinn ekki sá sami. Án tónlistar færum við ekki út að dansa, gætum ekki sungið, færum ekki á tónleika, heyrðum ekki brúðarmarsinn í brúðkaupum eða afmælissönginn í afmælum. Kvikmyndir og þættir væru án tónlistar, skrúðgöngur væru hljóðar – og svona mætti áfram telja.
Væri það ekki frekar litlaust og skrýtið?