Gunnhildur Óskarsdóttir, manneskjan á bak við styrktarfélagið Göngum saman, var ekki nema 38 ára þegar hún greindist með krabbamein í brjósti. Hún segir það vissulega hafa verið áfall og sérstaklega í ljósi þess að enginn í hennar fjölskyldu hafði fengið krabbamein. Þetta kom henni því algörlega í opna skjöldu.
Hélt hún væri ein af þeim heppnu
Gunnhildur fór strax í fleygskurð en í þeirri aðgerð kom í ljós að meinið hafð dreift sér í eitlana. Viku seinna fór hún því í aðra aðgerð þar sem allt brjóstið var fjarlægt – og í sömu aðgerð fór hún einnig í uppbyggingu á brjóstinu.
„Ég fór í lyfjameðferð að lokinni aðgerð sem gekk mjög vel. Á þessum tíma var ég nýbúin að fá lektorsstöðu í Kennaraháskólanum og var spennt fyrir því. Allt gekk vel eftir meðferðina og ég hætti alveg að hugsa um þetta, taldi þetta vera frá og trúði að ég hefði verið ein af þeim heppnu. Ég naut mín í vinnunni og var farin að leggja drög að því að fara í doktorsnám.
Fjórum árum eftir brjóstnámið, haustið 2002, fékk ég rannsóknarleyfi og var á leiðinni til Aberdeen í Skotlandi þar sem ég ætlaði að dvelja í nokkrar vikur þegar það finnast breytingar í blóði og í ljós kom að æxlisvísar höfðu hækkað. Ég fer til Aberdeen en kem aftur til baka sex vikum seinna og þá höfðu æxlisvísar enn hækkað og eftir rannsóknir hér heima er mér tjáð að það séu komin meinvörp í hálsliðina.
Þetta var annað áfall og fyrstu viðbrögð mín voru að hætta við þetta nám. En þarna settist ég niður og hugsaði hvað ég vildi eiginlega gera í lífinu – hvað hefði ég t.d. gert ef þetta hefði ekki komið fyrir mig. Læknirinn minn hvatti mig líka til þess að hugsa þetta á þann hátt, sem ég og gerði. Ég ákvað því að einbeita mér að því sem mér finnst skemmtilegt og reyna að hafa jákvæðnina að leiðarljósi. Þess vegna hélt ég mínu striki og fór í þetta nám sem snýst um það hvernig börn læra. Námið gaf mér alveg heilmikið í öllu þessu ferli.“
Var alveg rosalega hrædd
Við tók hormónameðferð og beinastyrkjandi meðferð sem Gunnhildur var síðan á í fjögur ár en þá kom í ljós að brjóstakrabbameinið hafði dreift sér enn frekar. Á þessum tímapunkti fannst henni heimurinn hrynja. Hún hafði talið þetta að baki og hélt hún væri sloppin.
„Þegar ég fæ þessar erfiðu fréttir er ég að leggja lokahönd á doktorsritgerðina mína og það voru aðeins þrír mánuðir í doktorsvörnina. Ég tók meðvitaða ákvörðun um að láta þetta ekki taka yfir lífið hjá mér og hélt einhvern veginn ró minni og stillingu. Ég er þannig gerð að ég vil sjá fyrir endann á hlutunum, klára það sem ég byrja á og ég ætlaði ekki að láta þetta ná tökum á mér. Vinnan á lokasprettinum hjálpaði mér líka við að hugsa um eitthvað annað en krabbameinið, en ég ætla samt ekki að neita því að á tímabili var ég alveg rosalega hrædd.“
Lyfjameðferð stanslaust í sjö og hálft ár
Þarna árið 2006 byrjar Gunnhildur í enn einni lyfjameðferðinni sem stóð stanslaust í sjö og hálft ár. „Það var ákveðið að prófa að taka lyfjahlé í lok ársins 2013 og það hlé stendur enn og mér hefur aldrei liðið betur“ Og nú einu og hálfu ári seinna stendur Gunnhildur keik og getur horft stolt yfir farinn veg enda búin að afreka mikið undanfarin ár.
„Það er búið að ganga vel svo lengi, það hefur verið fylgst vel með mér og lyfin hafa haldið sjúkdómnum niðri. Hvort þetta er varanleg lækning eður ei veit ég ekki. Ég veit raunverulega ekkert hvort þetta blossar upp aftur en ég er óendanlega þakklát fyrir hvað þetta hefur gengið vel. Mér hefur tekist að lifa með sjúkdómnum af æðruleysi. Sú ákvörðun að láta þetta ekki taka yfir lífið hefur án efa hjálpað en það er ekki sjálfgefið. Svo á ég stóran og þéttan vinahóp og yndislega fjölskyldu. Þá hefur vinnan mín og samskipti við gott fólk og auðvitað Göngum saman hópurinn gert helling. En ég tel að þetta hafi allt hjálpað.“
Svo trúin fái vængi
Styrktarfélagið Göngum saman var stofnað árið 2007 af Gunnhildi og vinkonum hennar og eru félagar í dag tæplega 500. Félagið hefur hingað til veitt 50 milljónir í styrki og mun veita 10 milljónir í viðbót í haust. Gunnhildur segir félagið hafa mætt ótrúlegri velvild og jákvæðni. Hún segir þessa styrki vera mjög mikilvæga fyrir vísindamennina sem eru að vinna frábært starf fyrir framtíðina.
„Þegar ég fór af stað með þetta þá var ég að hugsa þetta fyrir komandi kynslóðir. Þetta tekur svo langan tíma, svona rannsóknir eru langhlaup. Þótt lækning finnst ekki í dag þá trúi ég því að það muni gerast einn daginn. Og til þess að sú trú fái vængi þurfum við að styrkja vísindamennina svo lækning finnist.
Við þurfum að skilja eðli og orsakir sjúkdómsins sem getur verið svo margbreytilegur. Brjóstakrabbamein er ekki allt eins og þú getur aldrei borið þig saman við næsta mann. Hver einstaklingur er einstakur. Orðið krabbamein er líka svo gildishlaðið. Svo ég tali út frá sjálfri mér þá hefur mér t.d. aldrei fundist ég vera að berjast við krabbamein. Ég hef hins vegar lifað með því. Og mér hefur í raun aldrei fundist ég veik nema þá helst í lyfjameðferðunum vegna þeirra aukaverkana sem þeim fylgja.“
Sagan hennar Vigdísar Finnbogadóttur hjálpaði
Gunnhildur telur mikilvægt að þær konur sem greinast með þennan sjúkdóm haldi í vonina og trúi á hana. „Það eru ótalmörg dæmi um konur sem hefur gengið vel hjá. Og þegar þetta uppgötvast snemma eru allar líkur á að vel gangi. Maður vill líka heyra sögur um það sem gengur vel og sagan hennar Vigdísar Finnbogadóttur hjálpaði mér til dæmis mikið. Ég horfði á hana og aðrar konur sem hafði gengið vel hjá. Maður verður að reyna að horfa á sjálfan sig sem einstakan og alls ekki missa vonina“ segir þessi ótrúlega sterka kona að lokum.
Áttunda gangan hjá Göngum saman fer fram sunnudaginn 10. maí frá Háskólatorgi. Fjörið hefst kl. 10:00 en gangan sjálf fer af stað kl. 11:00. Einnig eru göngur á 14 öðrum stöðum á landinu, sjá upplýsingar á gongumsaman.is
jona@kokteill.is