Fyrir sumar konur getur verið erfitt að ræða um breytingaskeiðið – þeim þykir umræðuefnið óþægilegt og vilja helst ekkert af því vita.
Beri efnið á góma í hópi kvenna á fimmtugsaldri má gjarnan búast við ólíkum viðbrögðum. Sumar bregðast illa við, aðrar sitja hljóðar og stara tómlega út í loftið og enn aðrar vilja endilega ræða málið og galopna sig. Sumar konur segjast þó ekkert vilja um þetta heyra og fara að tala um eitthvað allt annað.
En af hverju þessi neikvæða ímynd?
Þessi viðbrögð gætu annars vegar stafað af því að breytingaskeiðið er staðfesting á því að við erum að eldast. Hins vegar gæti ástæðan einnig verið að sú ímynd sem við höfum af konu á breytingaskeiði er talsvert neikvæð. Margir sjá fyrir sér geðilla og pirraða konu sem þjáist af hitakófum og hefur allt á hornum sér.
Staðreyndin er þó sú að breytingaskeiðið hefur mismunandi áhrif á konur og eru engar tvær eins í þeim efnum. Þú gætir þess vegna verið ein af þessum flottu hressu konum sem finnst þetta tímabil vera boðberi góðra breytinga. Ef ekki, geturðu tekið þá ákvörðun að svo sé og þó að einkenni breytingaskeiðsins hrjái þig er um að gera að vera jákvæð.
Konur vita ekki hvað bíður þeirra
Konur ættu að tala meira saman um þetta skeið í lífi sínu og losa sig við þetta „tabú“ – og sem betur fer virðist það aðeins vera að breytast. Það sem er athyglisvert við viðhorf kvenna til þessa skeiðs er að þær vita yfir höfuð ekki nákvæmlega hvað bíður þeirra við tíðahvörf. Margar vita ekki hverju þær mega eiga von á þegar breytingaskeiðið skellur á.
Í ljósi þess eru niðurstöður rannsóknar Herdísar Sveinsdóttur, prófessors við hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands, um líðan og afstöðu 47 til 53 ára kvenna til tíðahvarfa og notkunar tíðahvarfahormóna áhugaverðar. Þar kemur fram að konur hafa almennt ekki fengið fræðslu hjá mæðrum sínum um tíðahvörfin og almennt virðast dætur ekki ræða við mæður sínar um hvernig þær gengu í gegnum tíðahvörf. Niðurstaðan er því sú að reynsluþekking færist ekki á milli kynslóða. Þessu þyrfti að breyta.
Ekki kenna breytingaskeiðinu um allt
Sumar þær breytingar og einkenni sem tilheyra þessu tímabili eru þess eðlis að þau gætu líka verið merki um eitthvað annað. Margt af því sem hrjáir konur, en er algjörlega ótengt breytingaskeiðinu, er þó skellt beint á það án frekari skoðunar. Slíkt getur auðvitað verið varhugavert og komið í veg fyrir að konur leiti sér lækninga.
Flestar konur vilja þó eflaust vita hvers vegna þessar breytingar eigi sér stað og hvað gerist í líkama þeirra. Þá hljóta konur að velta því fyrir sér hvort þær geti haft stjórn á þessu eða hvort þær séu alveg búnar að missa stjórnina á eigin líkama.
Auðvitað hefur þetta skeið líka sinn sjarma
Eins og önnur skeið í lífinu þá hefur þetta skeið einnig sinn sjarma. Konur ættu að reyna að hugsa ekki á neikvæðum nótum og líta á þetta tímabil bjartari augum.
Fyrir sumar getur það vissulega verið erfiður tími og þeim liðið illa, bæði líkamlega og andlega. En eins og allt annað í lífinu þá tekur þetta enda. Svo sigla líka sumar konur í gegnum breytingaskeiðið nokkurn veginn áreynslulaust og fagna þessum tímamótum, sáttar við sjálfar sig og fullar af orku og sjálfsöryggi.
Jóna Péturs – kokteillinn@gmail.com