Færa peningar okkur hamingjuna?
Margir vilja trúa að svo sé en almennt er þó talið að peningar færi manni ekki hamingju. Um þetta má eflaust endalaust deila.
Rannsóknir sýna engu að síður fram á að efnað fólk er hamingjusamara en fólk sem býr við fátækt. En þeir sem hafa í sig og á eru ekki endilega óhamingjusamari en þeir ríku. Þetta er nefnilega ekki alveg svona einfalt.
Og hvernig er t.d með þá sem eru duglegir að gefa? Eru þeir hamingjusamir?
Rannsóknir sýna fram á ágæti þess að gefa
Í rannsókn sem framkvæmd var við þrjá háskóla í Bandaríkjunum var öllum þáttakendum gefnir fimm til tuttugu dollarar. Annar helmingur þáttakenda átti að eyða peningunum í sjálfan sig en hinum helmingnum af hópnum var sagt að eyða peningnum í aðra. Niðurstaða rannsóknarinnar var sú að þeir sem áttu að eyða í aðra voru kátari og hamingjusamari en þeir sem urðu að eyða peningnum í sjálfa sig.
Þeir sem standa að rannsókninni benda máli sínu til stuðnings á aðra rannsókn sem sýndi fram á að þeir sem taka þátt í samfélagslegum þáttum eins og að gefa blóð eða gefa til góðgerðarmála væru jákvæðari og hamingjusamari en aðrir. Þykir þetta sérstaklega áhugavert í ljósi þess að almennt er talið að samfélög í dag þrífist á einstaklingshyggju. En það er greinilega ekki það sem veitir fólki hamingjuna þegar upp er staðið.
Getum hækkað hamingjustuðulinn
Fjölmargar rannsóknir þykja sýna á óyggjandi hátt að þeir sem eyða peningum í aðra geti fullnægt grundvallar sálfræðilegum þörfum og hækkað um leið hamingjustuðul sinn.
Þess vegna vilja vísindamenn benda okkur á að eyða þeim auka peningi sem við eigum í þá sem virkilega þurfa á þeim að halda frekar en okkur sjálf. Því þannig færir þú sjálfum þér hamingju um leið og þú hjálpar öðrum. Og hvað merkir þetta? Jú, peningar geta svo sannarlega fært manni hamingjuna – en kannski á annan hátt en margir héldu.
Það á því svo sannarlega við að sælla er að gefa en þiggja!